30.3.2021 9:29

Jarðeldaferð utan gjald- og sóttvarnasvæðis

Það er misskilin íhaldssemi ef menn telja að í því felist aðför að frelsi fólks til að njóta náttúrunnar að tekið sé gjald fyrir að skoða perlur hennar.

Strax og ljóst var að fólk streymdi að gosstöðvununum í Geldingadölum var því hreyft hér á þessum stað að gera ætti ráðstafanir til að auðvelda mönnum förina og tryggja öryggi þeirra að bjóða skipulagðar ferðir gegn gjaldi. Það var ekki gert en þess í stað drifið í því að leggja stíg að jarðeldunum til að sem fæstir færu sér að voða meðal annars með því að setja kaðal á hættulegasta hluta leiðarinnar. Sóttvarnalæknir varaði fólk síðan við kaðlinum, þar kynni veiran að leynast.

1265570Þessa mynd tók Íris Jóhannsdóttir, birtist hún á mbl.is og sýnir göngufólk á leið að jarðeldunum í Geldingadölum.

Í samtali við landeiganda Geldingadala lýsti hann sig andvígan töku gjalds vegna ferðar um land sitt. Ýmsan kostnað vegna þessara miklu mannaferða má hins vegar mæla og gjaldfæra sé vilji til þess. Í Fréttablaðinu birtist viðtal við Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, sem vill að „drifið verði í gjaldtöku í Geldingadölum“ eins og þar segir. Og einnig:

„Ólafur hefur lengi verið á þeirri skoðun að hefja eigi gjaldtöku við náttúruperlur landsins. Hann skrifaði fyrst um nauðsyn gjaldtöku í Lesbók Morgunblaðsins árið 1988 þegar landeigendur við Höfða í Mývatnssveit fóru að rukka inn.

„Þetta er enn að velkjast fyrir fólki. Mér finnst þetta einfalt mál. Hvort sem það er þessi náttúruperla eða einhver önnur þá kostar peninga að leggja stíga, vera með gæslu, setja upp merkingar og svo framvegis. Það er miklu eðlilegra að þeir sem njóta náttúrunnar á þessum stað borgi fyrir það en það sé fjármagnað af skattfé sem er síðan alltaf of naumt skammtað,“ segir Ólafur.“

Undir þetta sjónarmið skal tekið. Þingvallanefnd tók sögulegt skref um árið með gjaldtöku fyrir bílastæði við Hakið. Sú ráðstöfun skilaði miklum tekjum og hefur auðveldað allt sem gert hefur verið í þjóðgarðinum honum til verndar og í þágu öryggis ferðamanna.

Raunar eru ekki nema um það bil þrír áratugir frá því að skipulega var ráðist í stígagerð í þjóðgarðinum á Þingvöllum, áður tróðu menn niður gróður og spilltu ásýnd staðarins hvar sem þeim datt í hug að stinga niður fæti. Nú eru mörg niðurtroðin viðkvæm svæði uppgróin en ekki svöðusár. Þá má minnast þess að fyrir rúmri rúmri hálfri öld þótti leiðsögumönnum það til marks um að fæla ætti fólk frá því að kynna sér þinghelgina á Þingvöllum að lokað var fyrir bílaumferð um Almannagjá.

Það er misskilin íhaldssemi ef menn telja að í því felist aðför að frelsi fólks til að njóta náttúrunnar að tekið sé gjald fyrir að skoða perlur hennar. Gjaldtakan krefst þess að vísu að helst sé eitthvað annað veitt en aðgangurinn, til dæmis einhvers konar afdrep eða salernisaðstaða. Slík þjónusta ætti þó að verða báðum til gagns, ferðamanninum og eiganda perlunnar. Fréttir af sóðaskap og illri umgengni í Geldingadölum styðja þá skoðun.

Annars er einkennilegt að á þessum tíma sóttkvíar og sóttvarna þar sem rekið er upp ramakvein sé maður án grímu í verslun, talið er inn á staði, bannað að fara í sund eða á skíði skuli jarðeldaferð utan sóttvarnasvæðis. Hvað veldur?