26.8.2023 11:25

Ísland í straumi sögunnar

Fornleifarannsóknir og sagnfræðirannsóknir bæta sífellt nýjum þráðum í flókinn vef Íslandssögunnar. Á tímum mikilla umbreytinga líðandi stundar ber að leggja rækt við slíkar rannsóknir og kynna niðurstöður þeirra á markvissan hátt.

Margrét Gunnarsdóttir varði föstudaginn 25. ágúst doktorsritgerð sína í sagnfræði, Ísland og danskt krúnuvald á Norður-Atlantshafi: Fyrstu skref frjálsrar verslunar 1751–1791 í hátíðasal Háskóla Íslands.

Í kynningu segir að ritgerðin fjalli um áform um aukið hlutverk Íslands í verslun á Norður-Atlantshafi á árunum 1751–1791. Þá segir:

„Í umskiptatíð á alþjóðavettvangi sem hófst með sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjamanna, voru uppi áform um að stuðla að valdajafnvægi og bættum utanríkissamskiptum með frjálsri verslun. Æskilegt þótti að stefna einnig að verslunarfrelsi á Íslandi og aðgerðir dönsku krúnunnar í því efni eru settar í samhengi við alþjóðlega viðskiptasamninga á níunda áratugnum. Menningar- og réttararfur þjóðveldistímans, sem einkenndist af pólitísku frelsi, hafði undirliggjandi þýðingu. Samhliða stefnumótun frjálsrar verslunar voru því gefin út ýmis fornrit með hugmyndafræðilegt gildi sem styrktu valdastoðir danska erfðakonungsdæmisins og bentu á rætur siglinga- og verslunarfrelsis. Hægfara innleiðing frjálsrar verslunar á Íslandi sýndi framfarahug danskra stjórnvalda og krúnu og samvinnuanda hennar gagnvart nágrannaríkjum um verslunaráform á Norður-Atlantshafi.“

Við doktorsvörnina kom fram að Margrét hefur rannsakað heimildir frá 18. öld sem ekki hafa verið grandskoðaðar áður og lesið bréf og önnur frumgögn sem bregða nýju ljósi á þennan kafla Íslandssögunnar.

Grimur_jonsson_thorkelin_large

Má þar meðal annars nefna bréf frá Íslendingnum Grími Jónssyni Thorkelin (1752-1829) sem komst til metorða í Kaupmannahöfn. Hann fór þaðan árið 1785 í ferð til Bretlandseyja í leit að skjölum og fróðleik varðandi vist norrænna manna þar í landi. Förina fór hann í þágu dönsku krúnunnar til að efla virðingu hennar vegna sögu hennar í Bretlandi fyrr á öldum. Hann kynntist fyrirmönnum í London og hugmyndastraumum sem þar voru og tengdust Adam Smith, málsvara frjálsra viðskipta, og John Adams, öðrum forseta Bandaríkjanna sem tók þátt í að semja sjálfstæðisyfirlýsingu þeirra og slíta tengslin við Bretland.

Andmælendur Margrétar við doktorsvörnina voru Helgi Skúli Kjartansson, prófessor emeritus í sagnfræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Sveinn Máni Jóhannesson, nýdoktor við sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Orðaskipti þeirra sýndu enn á ný hve fráleitt er að líta þannig á að á þessum árum hafi Ísland og íslenskt samfélag verið svo fjarlægt og á hjara veraldar að hingað hafi ekki náð straumar alþjóðastjórnmála og viðskipta fyrir utan hugmyndir um breytingar á stjórnarháttum.

Þá eins og nú voru Íslandsmið gullkista sem staðinn var vörður um hvað sem leið áhuga á viðskiptafrelsi og afurðir sauðkindarinnar voru í hávegum hafðar. Í því sambandi má minnast þess að EES-samstarfið nær hvorki til sjávarútvegs né landbúnaðar en á báðum þessum sviðum hefur ESB mótað sameiginlega yfirþjóðlega stefnu.

Fornleifarannsóknir og sagnfræðirannsóknir bæta sífellt nýjum þráðum í flókinn vef Íslandssögunnar. Á tímum mikilla umbreytinga líðandi stundar ber að leggja rækt við slíkar rannsóknir og kynna niðurstöður þeirra á markvissan hátt.