18.3.2022 10:57

Í blindu Evrópuljóssins

Hér standa ESB-aðildarsinnar allt öðru vísi að verki. Þeir boða ekkert málefnalegt til stuðnings kröfunni um að ESB-málið verði nú sett á dagskrá.

Þegar hér „varð hrun“ haustið 2008 spratt fram mikill áhugi hjá þeim sem höfðu ekki séð tækifæri eða tilefni til að flagga áhuga sínum á ESB-aðild til að hefja sókn fyrir málstað sinn. Þeir náðu þeim árangri sumarið 2009 að meirihluti alþingis samþykkti aðildarumsókn. Hún átti að mati áköfustu talsmanna hennar að tryggja inngöngu í sambandið á 18 mánuðum ef ekki skemmri tíma.

Þetta mat reyndist alrangt. Ríkisstjórnin sem sótti um aðild setti viðræður um hana á ís í janúar 2013 og í þingkosningum vorið 2013 koltapaði ESB-málstaðurinn með fylgishruni stjórnarflokkanna, Samfylkingar og Vinstri-grænna (VG).

Nú í febrúar 2022 „varð innrás“ í Úkraínu og þá kom í ljós að áhrif ESB-bólusetningarinnar frá 2013 voru orðin að engu. Innrásin varð tilefni ESB-aðildarsinna hér til að rjúfa samstöðu að baki þjóðaröryggisstefnunni frá 13. apríl 2016.

Helsta einkenni málflutnings ESB-aðildarsinna er sama og áður: þeir færa tilfinningaleg rök fyrir skoðun sinni, segjast skynja tilfinningalegan meðbyr meðal þjóðarinnar og lýsa sér sem víðsýnni og frjálslyndari en hinir sem ekki sjá Evrópuljósið eins og það er kallað í leiðara Kolbrúnar Bergþórsdóttur menningarritstjóra Fréttablaðsins í dag (18. mars).

93949Danskir hermenn búast til brottfarar til Eistlands þar sem Danir standa vörð undir fána NATO. Næstu vikur ræða Danir hvort fella eigi niður 30 ára gamlan fyrirvara á aðild þeirra að varnarsamstarfi ESB.

Nýlega komu forystumenn helstu flokka Danmerkur sér saman um að leggja fyrir Dani 1. júní 2022 að ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort falla skuli frá fyrirvörum á ESB-aðild Dana frá 1992 um aðild þeirra að ESB-varnarsamstarfi. Færð eru málefnaleg rök fyrir tillögunni í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu samhliða samkomulagi flokkanna um að stórauka útgjöld til danska hersins.

Þetta er málefnaleg afstaða stjórnar og stjórnarandstöðu sem mótast vissulega af tilfinningahita gegn ofríki Pútins. Samkomulagið var gert á skömmum tíma og öðrum ágreiningsmálum ýtt til hliðar í þágu þess.

Fyrsta könnun á afstöðu danskra kjósenda eftir að samkomulagið var kynnt bendir til þess að mati sérfræðinga að alls ekki sé ljóst hvort meirihluti þeirra styðji afnám fyrirvarans. Róðurinn verði þyngri til að fá honum aflétt en samstaða á þingi sýni.

Hér standa ESB-aðildarsinnar allt öðru vísi að verki. Þeir boða ekkert málefnalegt til stuðnings kröfunni um að ESB-málið verði nú sett á dagskrá. Fyrir þeim vakir að stuðla að ágreiningi í stað sáttar. Hér var í gær vakin athygli á slíkum skrifum tveggja ritstjóra Fréttablaðsins og nú birtist menningarritstjórinn með ofstækisfulla gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn, hann sé „furðulega óábyrgur í þvermóðskufullri andstöðu sinni við inngöngu Íslands í Evrópusambandið“ og að flokkurinn „hatist“ (!) við ESB.

Að telja mest áríðandi nú að hefja hatrammar ESB-deilur á íslenskum stjórnmálavettvangi er aðeins til marks um að Evrópuljósið truflar dómgreind besta fólks. Vissulega má það loga en ekki blinda.