12.1.2019 12:14

„Holskefla“ á Flokk fólksins

Í báðum tilvikum er um flokka að ræða sem standa og falla með formanninum. Standi formaðurinn ekki af sér það sem Inga kallar „svona holskeflu“ er flokkurinn úr sögunni.

Hér hefur því verið haldið fram allt frá því í lok nóvember 2018 þegar fyrstu fréttir birtust af upptökum frá fundi sex þingmanna (fjórir úr Miðflokki og tveir úr Flokki fólksins) að tilgangurinn hafi ekki verið sá einn að sitja að sumbli heldur að treysta böndin með það fyrir augum að þingmenn Flokks fólksins (Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson) gengju til lið liðs við Miðflokkinn. Ólafur tæki jafnvel við þingflokksformennsku af Gunnari Braga Sveinssyni sem gaf til kynna að hann ætti inni að verða sendiherra eftir að hafa setið í embætti utanríkisráðherra. Jafnvel strax eftir að útskrift af fundinum birtist lét Gunnar Bragi eins og til álita kæmi að hann yrði sendiherra.

KarlgautisaelandKarl Gauti Hjaltason og Inga Sæland á meðan þau stóðu saman í Flokki fólksins. myndin birtist á vefsíðu Útvarps Sögu.

Karl Gauti Hjaltason birtir grein í Morgunblaðinu í dag (12. janúar) þar sem hann lýsir málum sem hann hefur lagt fram á alþingi og því að hann hafi setið „undir orðræðu sem spannst í hópi samstarfsmanna og ratað hefur í fjölmiðla“. Þarna vísar hans til bar-fundarins fræga 20. nóvember og segir síðan: „Ég hef beðist afsökunar á þeim mistökum að sitja of lengi undir þessum umræðum.“ Þá segir hann:

„Einhverjir hafa staldrað við ummæli mín við þetta tækifæri um hæfileika formanns Flokks fólksins til að leiða stjórnmálaflokk. Örskömmu síðar rak stjórn flokksins mig við annan mann úr flokknum.

Þessa gagnrýni hafði ég, á því ári sem ég hef verið í flokknum, margítrekað látið í ljósi beint við formanninn, meðal annars á vettvangi þingflokksins og í stjórn flokksins, þar sem ég var kjörinn með flestum atkvæðum allra stjórnarmanna á landsfundi flokksins í september sl.

Ég tel ekki forsvaranlegt að formaður stjórnmálaflokks sitji yfir fjárreiðum hans með því að vera jafnframt prókúruhafi og gjaldkeri flokksins. Þá get ég heldur ekki sætt mig við að opinberu fé sé varið til launagreiðslna í þágu nánustu fjölskyldumeðlima stjórnmálaleiðtoga. Landslög kveða skýrt á um vandaða meðferð þeirra fjármuna sem stjórnmálaflokkar þiggja úr almannasjóðum og er mikilvægt að eftir þeim sé farið.“

Þetta eru alvarlegar ásakanir og Inga Sæland flokksformaður bregst hart við á mbl.is 12. janúar. Hún segir:

„Mér finnst þetta mest lýsa höfundi og hans hugsjón gagnvart Flokki fólksins. Þetta virkar á mig sem særindi og hefndargirni. Málið er það að þeir [Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson] voru aldrei sáttir við það hvað ég sat á hverri krónu eins og ormur á gulli.“

Inga segist hafa hætt sem gjaldkeri fyrir einum mánuði. Hún hafi ekki greitt atkvæði um að sonur hennar yrði ráðinn í fast launað starf fyrir flokkinn eftir að hafa starfað launalaust sem sjálfboðaliði. Kjördæmaráð og stjórn flokksins hafi öll haft aðkomu að ráðningu hans.

Inga segir að Flokkur fólksins hafi þurft að þola illgirni og andúð. „Það er alls staðar fólk sem er að grafa undan okkur og skemma fyrir okkur. Við verðum bara að standa af okkur svona holskeflu.“

Eftirleikur fundarins 20. nóvember og birtingar útskriftar af honum 28. nóvember er í stuttu máli þessi:

Karl Gauti og Ólafur eru nú utan flokka á alþingi. Tveir þingmenn sitja í þingflokki Flokks fólksins. Tveir þingmenn Miðflokksins, Gunnar Bragi og Bergþór Ólason, eru utan þings.

Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, Helga Vala Helgadóttir, Samfylkingu, vill að nefndin samprófi það sem Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson hafa sagt um sendiherraembættið sem heillaði Gunnar Braga. Á grundvelli hvaða ákvæðis í þingsköpum alþingis slík samprófun færi fram er óljóst.

Forseti alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, og forsætisnefnd sýndi fljótræði þegar hún, án þess að hafa til þess hæfi, fól siðanefnd alþingis að leggja mat á það sem fram fór á fundinum 20. nóvember. Þegar upplýst var um klúðrið boðaði Steingrímur J. að málinu yrði bjargað með lagabreytingu.

Innan Miðflokksins hafa trúnaðarmenn sagt af sér störfum meðal annars vegna þess að þeir sætta sig ekki við skort á lýðræðislegum og skipulegum ferlum við töku ákvarðana.

Lýsingar Karls Gauta á stjórnarháttum innan Flokks fólksins og viðbrögð Ingu Sæland benda til að þar sé einnig skortur á lýðræðislegum og skipulegum ferlum.

Í báðum tilvikum er um flokka að ræða sem standa og falla með formanninum. Standi formaðurinn ekki af sér það sem Inga kallar „svona holskeflu“ er flokkurinn úr sögunni. Þess vegna er hætta á að flokksmenn fari mildari höndum um formanninn en ella væri og flokksvandinn vegna hans vaxi í stað þess að minnka.