30.4.2023 11:17

Hollenska bænda-borgarahreyfingin

Hollenskir bændur standa vel fjárhagslega enda stunda þeir mjög arðbæran rekstur. Hollendingar eru önnur mesta útflutningsþjóð heims á landbúnaðarvörum.

Nokkra athygli vakti í lok mars 2023 þegar Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, vakti máls á því í setningarræðu búnaðarþings hvort ekki væri réttast að tæplega 2500 félagsmenn samtakanna stofnuðu eigin stjórnmálaflokk ef íslensk stjórnvöld hlustuðu ekki á raddir bænda. Sótti hann fyrirmynd til Hollands þar sem BoerBurgerBeweging party (BBB) – Hreyfing bænda-borgara unnu 17 af 75 sætum í öldungadeild hollenska þingsins í héraðskosningum 15. mars. Er BBB nú stærsti flokkurinn í deildinni.

Hollenskir bændur standa vel fjárhagslega enda stunda þeir mjög arðbæran rekstur. Hollendingar eru önnur mesta útflutningsþjóð heims á landbúnaðarvörum, næst á eftir Bandaríkjamönnum, segir Hollendingurinn Eva Vlaardingerbroek í grein í The Spectator sem birtist í liðinni viku.

Hún segir að fylgi BBB megi rekja til þess að fjögurra flokka ríkisstjórn Marks Rutte hafi snúist gegn bændum til að ná settum loftslagsmarkmiðum árið 2030 í samræmi við stefnu sína og markmið ESB. Til að markmiðinu verði náð er talið nauðsynlegt að hollenskum kúabúum fækki um 30% fram til 2030. Í Hollandi sé nauðsynlegt að minnka útblástur köfnunarefnis, niturs (e. nitrogen) um helming, núverandi magn ógni hollensku umhverfi.

Hollenskir bændur neyðast annað hvort til að selja ríkinu land sitt núna eða sæta eignarnámi síðar. Þessa árás á bændur ber að skoða í stærra samhengi grænu stefnunnar sem hollenska ríkisstjórnin fylgir og ætlast til að þögli meirihlutinn kosti án þess að hafa nokkru sinni verið spurður álits. Hollenskir kjósendur halda sig almennt til hlés í stjórnmálum. Þeir skilja hins vegar að bændur tryggja þjóðinni og öðrum þjóðum heims fæðu og hafa fengið sig fullsadda stefnum glóbalista til að „bjarga heiminum“ með gervimatvælum, ætum skordýrum, sólskjöldum og vindorkugörðum.

7cb7032a-e2bd-11ed-9a42-0210609a3fe2

Caroline van der Plas, leiðtogi hollensku BBB-hreyfingarinnar. 

BBB varð að stjórnmálahreyfingu fyrir þremur árum þegar blaðakonan Caroline van der Plas og þingmaður Kristilega lýðræðisflokksins sagði skilið við hann og hafði forgöngu um nýju hreyfinguna eftir að tugir þúsunda bænda komu saman í Haag, höfuðborg Hollands, til að mótmæla umhverfisáætlun Rutte-stjórnarinnar.

Frá því að sigurinn mikli vannst 15. mars hefur Van der Plas og hreyfing hennar verið beitt ofurþrýstingi af hálfu hollenskra stjórnvalda og ESB með kröfu um að laga sig að loftslagsmarkmiðunum. Þaulreyndur hollenskur stjórnmálamaður, Frans Timmermanns, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, nýtur þess heiðurs að hafa barið saman loftslagsstefnu ESB og er honum mikið kappsmál að við hana verði staðið.

Van der Plas er nú á milli steins og sleggju, kjósendur BBB krefjast þess að hún standi við stóru orðin en ríkisstjórnin og stjórnendur ESB neita að breyta um stefnu. Hugsanlega verður sigur BBB 15. mars til þess að hollenska stjórnin springi, gengið verði til þingkosninga og Caroline van der Plas verði forsætisráðherra. Framtíðin leiðir það í ljós.

Þessi hollenska saga og stofnun Bændaflokks á Íslandi ríma ekki alveg saman. Hér eiga bændur mörg ónýtt tækifæri til að vinna að kolefnisjöfnun og verði þau nýtt á réttan hátt ætti hagur þeirra að batna. Landbúnaðarstefna til ársins 2040 er til meðferðar í þingnefnd og verður væntanlega samþykkt í vor.