29.9.2021 9:27

Hlutleysisbrot í Kastljósi

Það braut gegn öllum hlutleysisreglum ríkisútvarpsins að efna til umræðnanna í Kastljósi á þann hátt sem gert var 28. september. Þar var kastað steinum úr glerhúsi.

Píratar og Miðflokkurinn fóru illa út úr alþingiskosningunum. Fallkandídatar þeirra fara nú mikinn og ala á tortryggni í garð þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmd kosninganna og talningu atkvæða í NV-kjördæmi.

Vissulega hefur komið í ljós að klúðurslega var staðið að framkvæmd talningar og vörslu kjörgagna að henni lokinni í Borgarnesi. Þeir sem þar bera ábyrgð verða að gera hreint fyrir sínum dyrum og taka af öll tvímæli um það sem vekur efasemdir. Þeir starfa í umboði alþingis og þeim ber að leggja öll gögn fyrir það svo að þingmenn geti sinnt stjórnarskrárbundinni skyldu sinni um úrskurð kjörbréfa. Til að stofnað verði til kosninga að nýju í einu kjördæmi þarf meira til en fyrir liggur. Ekki eru uppi ásakanir um kosningasvindl.

Þegar rætt er um alvarlegt og viðkvæmt mál eins og framkvæmd kosninga ber að kynna öll málsatvik á hlutlægan hátt. Engra slíkra grundvallarreglna var gætt í Kastljósi ríkissjónvarpsins að kvöldi þriðjudags 28. september. Annar viðmælendanna, Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður og oddviti Pírata í NV-kjördæmi, var eins vanhæfur til að fjalla um málið og verða má. Hann fékk 6,3% atkvæða í kosningunum og náði ekki kjöri. Nú er honum greinilega kappsmál að fá að reyna aftur og gengur harkalega og einstrengingslega fram með þá kröfu sína að alþingismenn ógildi kosninguna, þingflokkur Pírata tekur undir þessa kröfu.

Í Kastljósinu færði Magnús Davíð þetta hagsmunamál sitt í þann búning að vegna ágreinings um talningu atkvæða í NV-kjördæmi í kosningum sem leiddu til skýrrar niðurstöðu af hálfu kjósenda sé allt stjórnkerfi þjóðarinnar í húfi. Löggjafarvaldið ráði hverjir fari með framkvæmdavaldið og framkvæmdavaldið skipi dómara. Ekki sé því í boði að sætta sig við einhverja vankanta og segjast bara ætla að gera betur næst.

KastljoskosningasvindlKastljós 28. september 2021, frá vinstri: Karl Hólmar Ragnarsson, lektor í lagadeild HÍ, Sigríður Hagalín þáttarstjórnandi, Magnús Davíð Norðdahl, frambjóðandi Pírata í NV-kjördæmi.

Meginmáli skiptir að af kosningum megi ráða vilja kjósenda. Hann blasir við í NV-kjördæmi. Að ganga eigi gegn honum með rökum á borð við þau sem Magnús Davíð kynnir, bullandi vanhæfur, brýtur til dæmis gegn meðalhófsreglunni sem alþingi ber að virða þegar um þetta mál er fjallað að uppfylltri fullnægjandi rannsóknarskyldu sem snýr að kjörstjórn NV-kjördæmis.

Það braut gegn öllum hlutleysisreglum ríkisútvarpsins að efna til umræðnanna í Kastljósi á þann hátt sem gert var 28. september. Þar var kastað steinum úr glerhúsi þegar veist var að öðrum opinberum aðilum fyrir að virða ekki reglur. Fréttastofa ríkisútvarpsins getur borið fyrir sig að hjá henni sé hefð fyrir slíkum vinnubrögðum. Í Kastljósinu gaf Magnús Davíð ekkert fyrir að formaður NV-kjörstjórnar hefði talað með þeim hætti að í störfum sínum hefði hann reist á hefð sem gengi framar almennum lögum, í þessu tilviki kosningalögum. „Þetta er auðvitað fráleitt,“ sagði Magnús Davíð eins og sá sem valdið hefur.

Endurtalning atkvæða í NV-kjördæmi setti af stað hringekju jöfnunarsæta en raskaði ekki hlutföllum milli flokka. Frambjóðendur í jaðarsætum búa við óvissu þar til öll atkvæði hafa verið endanlega talin. Örlög þeirra ráðast ekki af rannsókn lögreglu heldur vilja kjósenda og hann ræður ákvörðun þingmanna í þessu máli en ekki hagsmunir einstakra frambjóðenda.