1.6.2019 10:25

Hlé á málþófi í von um samkomulag

Á alþingi átti að reyna að ná samkomulagi um mál á dagskrá þingsins sem hefðu orðið að bíða vegna málþófs miðflokksmanna. Sagt er að um 40 mál séu óafgreidd.

Lesendum þessarar síðu skal skýrt frá því að formenn þingflokka og forseti Alþingis komust að samkomulagi að morgni föstudags 31. maí um að fresta síðari umræðu um þriðja orkupakkann til að koma öðrum málum á dagskrá. Málið átti að ræða klukkan 09.30 þennan dag en eins og kunnugt hafði varaformaður Miðflokksins kvartað undan að þeir fengju ekki að tala hver við annan í dagsbirtu með fólk á þingpöllunum.

Á alþingi átti að reyna að ná samkomulagi um mál á dagskrá þingsins sem hefðu orðið að bíða vegna málþófs miðflokksmanna. Sagt er að um 40 mál séu óafgreidd. Þau hafa legið síðan um miðjan maí þegar miðflokksmenn lögðu undir sig þingsalinn með samtölum sínum í ræðustól fyrir framan forseta og starfsmann þingsins. Líklegt er að þeim hafi tekist að ganga að málþófsréttinum dauðum.

Málið sem þeir velja í þrefi sínu, þriðji orkupakkinn, stendur alls ekki undir því að þessum rétti minnihluta þingmanna sé beitt á þennan hátt. Til að réttlæta maraþonumræðurnar hafa miðflokksmenn kosið að gera mun meira úr málinu en efni þess leyfir.

7591d02bfcfbdf807eba8ad77d965f8fd303_9-1024x658Er dapurlegt að sjá menn sem almennt eru trúverðugir taka þátt í þessum ljóta leik með miðflokksmönnum, allt í blekkingarskyni og í von um að koma höggi á ríkisstjórnina eða einstaka stjórnarflokka. Þá er einnig alið á andúð á EES-samningnum almennt án þess að þeir sem þannig tala bjóði nokkurn kost sem tryggir þjóðinni jafngóð kjör í öllu tilliti.

Í fréttum segir að formenn stjórnmálaflokkanna ætli að hittast nú um helgina og ráða ráðum sínum um framhald þingstarfa. Unnt er að setja þriðja orkupakkann á dagskrá þingsins hvenær sem er. Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að innleiða hann og mikill meirihluti er fyrir málinu á þingi.

Ætíð þegar ágreiningur af þessu tagi verður á alþingi leitast forystumenn við að ná samkomulagi sem leysir hnútinn. Vandinn að þessu sinni er þvermóðska minnihlutans undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Spurning er hvort honum sé enn einu sinni kappsmál að sýna að við hann sé ekki unnt að semja og allt sem gagnrýnt sé í fari hans megi rekja til annarra en hans sjálfs.