12.11.2020 10:43

Helga Vala í stjórnarskrárvanda

Helga Vala fetar þó ekki í fótspor Ragnars Aðalsteinssonar hrl. sem boðar byltingu (að vísu ekki blóðuga) til að breyta stjórnarskránni.

Þingmenn Pírata og Samfylkingar sameinuðust um það í byrjun október að endurflytja svonefndar tillögur stjórnlagaráðs, 10 ára gamlar tillögur að nýrri stjórnarskrá sem alþingi ýtti til hliðar vorið 2013. Þar með lýstu þeir yfir slitum á stjórnarskrár-samráði formanna stjórnmálaflokkanna undir forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Í ræðu á alþingi um þetta frumvarp 21. október 2020 sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, að engin samstaða væri í nefndinni undir forystu forsætisráðherra. Katrín Jakobsdóttir hefði að vísu ekki lagt áherslu á samstöðu um efni málsins heldur „feril vinnunnar“ við að breyta stjórnarskránni. Þá sagði Helga Vala í ræðunni á þingi að kannski hefði aldrei verið ætlun ríkisstjórnarflokkanna að ná saman um efni málsins.

„Kannski var þetta samstaða um ferlið á kjörtímabilunum en ekki neitt annað og það er kannski það sem er að birtast okkur núna,“ sagði þingmaður Samfylkingarinnar sem stefndi á þessum tíma að varaformennsku í flokki sínum og bætti við að tækist ekki að fá meirihluta við frumvarpið með tillögum stjórnlagaráðs, sem hún veit að tekst ekki nú frekar en áður, vildi hún að hjáleiðin við stjórnarskrárbreytingar sem samþykkt var vorið 2013 yrði opnuð aftur! Hjáleiðina lögðu þáverandi formenn Samfylkingar og VG þegar þeir spörkuðu „nýju stjórnarskránni“ út af vellinum. Nú er Helgu Völu sama þótt það verði gert aftur.

RGB_til_smakkunarÍ Morgunblaðinu í dag (12. nóvember) birtir Helga Vala gamalkunnar rangfærslur um að Sjálfstæðisflokkurinn standi gegn því að Katrín Jakobsdóttir leggi fram tillögur í nafni formanna flokkanna um breytingar á stjórnarskránni. Þetta stef hefur fréttastofa ríkisútvarpsins einnig leitast við að boða þegar vísvitandi er litið fram hjá því að tveir stjórnarandstöðuflokkar hafa rofið sameiginlegar viðræður flokksformannanna með sérstöku frumvarpi. Hvers vegna þessa tvöfeldni og fals í svo mikilvægu máli?

Helga Vala fetar þó ekki í fótspor Ragnars Aðalsteinssonar hrl. sem boðar byltingu (að vísu ekki blóðuga) til að breyta stjórnarskránni. Hún segir í Morgunblaðinu að líkur séu á að „tveir til þrír þingmenn leggi fram fáein frumvörp til breytinga á stjórnarskrá, að því er virðist ómeðvituð um að fram hafi farið þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir rúmum þremur árum um nýju stjórnarskrána eins og hún þá stóð eftir vinnu stjórnlagaráðs“.

Til hvaða þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2017 þingamaðurinn vísar er óljóst en nokkur efnisatriði vegna hugsanlegra breytinga á stjórnarskrá voru afgreidd í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Sumt af því sem þar kom fram tók meirihluti þingnefndar til greina en vinnu hennar var ýtt til hliðar með sömu aðferð vorið 2013 og Helga Vala segist sætta sig við að beitt verði vegna frumvarps sem hún flytur nú á þingi.

Vandinn vegna „nýju stjórnarskrárinnar“ er ekki hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins heldur Samfylkingarinnar og sérstaklega Helgu Völu sem virðist satt að segja hafa misst þráðinn í málinu eða skilur hann ekki.