25.2.2019 7:27

Heimssýn Halls í þágu Trumps

Hallur telur að grein mín sanni að ég sé augljóslega „glóbalisti og laumu Brusselíti, líkt og Styrmir Gunnarssonar heldur fram við mig,“ eins og hann orðar það.

Föstudaginn 22. febrúar birti ég grein í Morgunblaðinu vegna umræðna á München-ráðstefnu um öryggismál. Greinina má lesa hér. Þetta varð tilefni þess að Hallur Hallsson gerði mig að leiksoppi í baráttu sinni fyrir „framtíð vestrænnar siðmenningar“ en þar reisir hann skoðanir sínar meðal annars á því sem einhver „Q“ segir um baráttu Donalds Trumps við andstæðinga sína, ekki síst í fjölmiðlum og í „djúpríkinu“.

Hallur telur að grein mín sanni að ég sé augljóslega „glóbalisti og laumu Brusselíti, líkt og Styrmir Gunnarssonar heldur fram við mig,“ eins og hann orðar það.

Hvað þeim Halli og Styrmi hefur farið á milli í samræðum um „djúpríkið“ er óljóst, annað en ég sé „glóbalisti og laumu Brusselíti“. Að vera „laumu Brusselíti“ er líklega ásökun um að ég sé laumulegur útsendari ESB og Brusselmanna.

Að ég fari leynt með skoðanir mínar í Evrópumálum eða öðrum utanríkismálum er alrangt. Ég hef til dæmis skrifað áratugum saman um þau í Morgunblaðið. Þar áttum við Styrmir samstarf eins og á Evrópuvaktinni þegar við börðumst gegn aðild Íslands að ESB á árunum 2009 til 2014.

Hallur telur að ég sé haldinn illum öndum af því að ég horfi á CNN og lesi The New York Times og The Washington Post. Einmitt þess vegna hafi ég ranga afstöðu til Mexíkó-múrsins sem Trump lofaði að reisa á kostnað Mexíkó en nú með fé úr almannavarnasjóðum.

Hallur segir:

„[E]r ekki kominn tími til að Björn Bjarnason átti sig á því að demókratar, Hillary Clinton og Obamastjórnin plottuðu valdarán og beittu FBI, DOJ [dómsmálaráðuneytið] og CIA fyrir vagninn!“

Um þetta fyrirhugaða valdarán veit ég ekkert. Satt að segja botna ég ekkert í þessum skrifum Halls. Hugtakið „djúpríki“ vísar í Bandaríkjunum til þeirra sem Trump telur vinna gegn sér.

52887009_10218620324409135_5486075878821593088_nHallur birti meðfylgjandi mynd af mér og Hillary Clinton. Vildi hann þannig tengja mig enn frekar við andstæðinga Trumps. Myndin var tekin í Washington 8. apríl 1999  þegar hrundið var af stað kynningu á víkingasýningu Smithsonian árið 2000. Síðar sagði ég nánar frá þessum viðburði hér .