1.5.2022 11:45

Heimagerður rógburður

Angela Rayner átti sjálf upptökin og sigaði síðan Twitter-aðdáendum sínum á blaðamenn og pólitíska andstæðinga.

Fyrir réttri viku birti breska blaðið The Mail on Sunday frásögn af því eftir ónefndum heimildarmanni innan þingflokks breska Íhaldsflokksins að Angela Rayner, vara-leiðtogi Verkamannaflokksins, truflaði Boris Johnson forsætisráðherra þegar hann svaraði fyrirspurnum í þingsalnum með skírskotun til frægrar myndar af Sharon Stone, aðalleikkonu í kvikmyndinni Basic Instinct.

Eftir að fréttin birtist stofnaði Angela Rayner þráð á Twitter þar sem hún hneykslaðist á því að í örvæntingafullum tilraunum sínum til að bjarga Boris Johnson hefðu klappstýrur hans gripið til ósiðlegs rógburðar.

0_Prime-Ministers-QuestionsAngela Rayner í breska þinginu.

Innan breska þingsins og utan fór allt á annan endann af hneykslun. Hafin var leit að sökudólgum meðal íhaldsþingmanna. Boris Johnson sagði að gripið yrði hörðustu refsingar gegn þeim sem sýndi af sér slíka karlrembu. Framkoma Angelu Rayner í þingsalnum truflaði sig ekki á neinn hátt.

Forseti neðri deildarinnar Sir Lindsay Hoyle var hvattur til að svipta stjórnmálaritstjóra The Mail on Sunday heimild til að koma inn í þinghúsið. Þingforsetinn greip til þess óvenjulega ráðs að kalla ritstjóra blaðsins og stjórnmálaritstjórann fyrir sig.

Ritstjórinn hafnaði boðinu þar sem þingforsetinn hefði skömmu eftir að það var sent sagt frásögn blaðsins vera „móðgandi karlrembu“. Sir Lindsay hefði þegar gert upp hug sinn auk þess sem blaðið væri andvígt allri mismunun gegn konum og hvers kyns karlrembu. Blaðamenn mættu hins vegar segja frá því sem þingmenn segðu þeim af samtölum innan veggja þinghússins þótt sumum þætti það ekki allt geðfellt.

Nú hefur verið skýrt frá því að upphaf samlíkingarinnar við Sharon Stone í Basic Instinct sé að rekja til Angelu Rayner sjálfrar. Hún hefði gantast með hana í samtölum við þingmenn í Íhaldsflokknum í „reykpásu“ úti á svölum þinghússins.

Stjórnmálaritstjórinn segir að við vinnslu upphaflegu fréttarinnar hafi hann nefnt efni þessara samtala við upplýsingafulltrúa Verkamannaflokksins sem sagði þetta „alrangt“ og „uppspuna“, þess vegna hefði hann sleppt vísan til samtalanna í greininni.

The Daily Mail fann svo hlaðvarp frá janúar 2022 þar sem Angela Rayner hlær að Basic Instinct-samlíkingunni. Hún vakti í samtalinu sjálf máls á því sér hefði verið líkt við Sharon Stone þegar hún tók þátt í fyrispurnartíma forsætisráðherrans í þeim sama mánuði. Á netinu hefði verið búin til mynd þar sem hún sæist krossleggja fætur sínar oftar en einu sinni. Samtalið birstist 18 dögum eftir að blaðakona hjá Mail líkti Rayner við Stone án þess að nokkur gerði athugasemd.

Angela Rayner átti sjálf upptökin og sigaði síðan Twitter-aðdáendum sínum á blaðamenn og pólitíska andstæðinga.

Þetta er beinagrind sérkennilegs máls sem ristir í raun mun dýpra. Ástæða er til að varast falsfréttir og einnig tilraunir til að breyta sönnum frásögnum í lygi. Staðfesta og árvekni dugði hér til að afhjúpa tvöfeldnina í þessum ljóta leik.