29.4.2023 11:52

Heim frá Ítalíu

Þetta var góður árstími til að fara um í þessu fagra, suðlæga landi. Eftir að hafa heimsótt Róm á öllum árstímum er þetta sá besti sem ég hef kynnst.

Margt mætti skrifa um 10 daga  Ítalíuferð sem lauk í gær (28. apríl). Hér verður þó látið sitja við frásagnir undanfarna daga og myndir sem birst hafa á síðunni. Þetta var góður árstími til að fara um í þessu fagra, suðlæga landi. Eftir að hafa heimsótt Róm á öllum árstímum er þetta sá besti sem ég hef kynnst. Fyrir utan erlenda ferðamenn voru einnig innlendir skólabekkir á öllum aldri í röðum að skoða það sem fyrir augu bar bæði í Napólí og Róm.

Ítalir halda 25. apríl hátíðlegan sem frídag til að minnast frelsunar Ítalíu Il Giorno della liberazione og andspyrnubaráttunnar La Festa della Resistenza í annarri heimsstyrjöldinni gegn nazistum og fasistunum sem stjórnuðu Sósíalíska lýðveldinu Ítalíu, leppríki nazista í nafni fasisma. Ítalir fagna síðan lýðveldisdeginum 2. júní ár hvert.

Iðnaðarborgirnar í Norður-Ítalíu, Mílanó og Tórínó, voru frelsaðar 25. apríl 1945. Bandaríkjaher kom 1. maí 1945 og þýska hernámsliðið gafst opinberlega upp daginn eftir. Frelsisdagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur 25. apríl frá árinu 1946.

Eftir 25. apríl 1945 hlutu allir leiðtogar fasista dauðadóm. Benito Mussolini var skotinn þremur dögum síðar þegar hann reyndi að flýja norður til Sviss. Eftir frelsun landsins gengu Ítalir til þjóðaratkvæðagreiðslu 2. júní 1945 og ákváðu að binda enda á konungdæmið og stofna lýðveldi.

IMG_6797Stytta af Umberto I. Ítalíukonungi í Napoli. Stjórnleysingi myrti hann árið 1900 en þá hafði hann ríkt sem konungur frá 1878.

Ítölsk stjórnmál eru óskiljanleg fyrir aðra en innvígða og innmúraða og skal því skautað yfir þau. Forsætisráðherrann núna er Giorgia Meloni (46 ára), hægri- og þjóðernissinnuð, katólsk útivinnandi móðir af verkamannastétt, afburðanemandi sem hafði ekki efni á að yfirgefa verkamannahverfi í Róm og stunda háskólanám. Hún vann á bar, var barnfóstra, enskukennari og átti bás á útimarkaði áður en hún sneri sér alfarið að stjórnmálum. Eins og mál standa nú hefur hún góð tök á embættinu en almennt tolla forsætisráðherrar ekki lengi í embættinu á Ítalíu.

Icelandair-vélin var á áætlun síðdegis í gær frá Róm. Afgreiðsla á Leonardo da Vinci flugvellinum var snurðulaus en vegalengdir eru miklar. Ég ætlaði að taka tölvu úr handfarangri í öryggisskoðun. Sagði vörður það óþarft og benti stoltur á gegnumlýsingartækið: New machine! – Nýtt tæki! Stytti það afgreiðsluna til muna. Nýlega bárust fréttir frá London um að ekki þyrfti að taka vökva úr handfarangri þar við öryggisskoðun. Nýtt tæki!

Við kaup á smátæki á Rómarflugvelli spurði ég afgreiðslumann hvort hann þyrfti ekki innritunarspjaldið. Hann hélt nú ekki. Í flugstöð Leifs Eiríkssonar fæst ekki afgreiddur tebolli nema spjaldinu sé veifað.

Samkeppnishæfni flugstöðva ræðst af mörgu, meðal annars smáatriðum eins og þessum sem létta ferðamanninum lífið. Leifur Eiríksson má ekki lúta í lægra haldi fyrir Leonardo da Vinci – eða hvað?