18.4.2023 11:47

Handritin fá heimili

Hús íslenskunnar  verður vígt síðasta vetrardag, 19. apríl. Þar verður framtíðaraðsetur handritanna, íslensku dýrgripanna, merkasta framlags Íslendinga til heimsmenningarinnar.

Fréttir eru um að vígja eigi Hús íslenskunnar á morgun, síðasta vetrardag, 19. apríl. Þar verður framtíðaraðsetur handritanna, íslensku dýrgripanna, merkasta framlags Íslendinga til heimsmenningarinnar.

Nú eru rétt 52 ár frá stórviðburðinum 21. apríl 1971 þegar handritin komu heim frá Kaupmannahöfn. Þegar 30 ár voru frá heimkomu þeirra var þess minnst með athöfn í hátíðarsal Háskóla Íslands, 21. apríl 2001.

Hus-islenskunnarHús íslenskiunnar (mynd: Kristinn Ingvarsson).

Ég var menntamálaráðherra árið 2001 og flutti ræðu á athöfninni 21. apríl í hátíðarsalnum.

Þar sagði ég meðal annars:

„Í apríl árið 2000 skipaði ég nefnd til að móta tillögur um viðbyggingu við Þjóðarbókhlöðu sem jafnframt því að leysa úr þörfum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns fyrir aukið rými yrði aðsetur Árnastofnunar og fleiri háskólatengdra stofnana, sem fást við rannsóknir á íslenskri tungu og bókmenntum og vinna að viðgangi þeirra.

Garðar Halldórsson arkitekt var formaður nefndarinnar, sem skilaði vandaðri greinargerð um síðustu áramót. Nefndin mælir með því, að fimm stofnanir, Árnastofnun, Íslensk málstöð, Orðabók háskólans, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun flytjist í nábýli við Þjóðarbókhlöðuna. Það yrði fjárhagslega hagkvæmt, skapaði öfluga rannsóknamiðstöð á sviði íslenskra fræða og myndaði góða aðstöðu til að kynna íslensk menningarverðmæti og veita fræðslu um þau.

Vegna þessara nefndarstarfa hefur Árnastofnun skilgreint húsnæðisþarfir sínar við nýjar aðstæður og þar á meðal þörf fyrir aukið sýningarrými. Þriðjungur ferðamanna leggur leið sína hingað vegna áhuga á menningu og sögu þjóðarinnar. Sumir koma til Íslands eingöngu vegna þess að þeir vita um Snorra-Eddu og skilja ekki hvers vegna þeir fá ekki að sjá handrit hennar í glæsilegri umgjörð. Með endurreisn Þjóðminjasafns Íslands og nýrri byggingu til að kynna íslensk handrit og bókmenningu milli Þjóðminjasafns og Þjóðarbókhlöðu yrði hér helsta safnamiðstöð þjóðarinnar í tengslum við Háskóla Íslands.“

Það er ánægjulegt að þessi áform sem kynnt voru fyrir 22 árum hafa nú gengið eftir og við blasir byggingin glæsilega sem vígð verður á morgun.

Þúsundir manna tóku þátt í samkeppni sem Stofnun Árna Magnússon í íslenskum fræðum efndi til um nafn á byggingunni og verður spennandi að fá af því fréttir hvaða nafn þessi glæsilega umgjörð um handritin mun bera um ókomna tíð.