16.8.2023 9:52

Hálfkák í Schengen

Íslensk stjórnvöld hafa ekki lagað Schengen-aðildina að breyttum aðstæðum í útlendingamálum.

Meginrök Halldórs Ásgímssonar utanríkisráðherra og Þorsteins Pálssonar dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar forsætisráðherra árið 1995 voru að skipaði Ísland sér utan Schengen rofnuðu landamæralaus samskipti þjóðarinnar við norrænu samstarfsþjóðirnar.

Hér er gjarnan bent á að Ísland sé eyja eins og Bretland og Bretar hafi ekki gerst aðilar að Schengen – hvers vegna við?

Bretar eru gömul nýlenduþjóð og lögðu fyrir 30 árum enn meiri rækt við breska samveldið en þeir gera nú, aðild þeirra að Schengen var talin flækja þau samskipti. Nú er staða Breta utan Schengen og ESB sérstakt aðdráttarafl fyrir farandfólk sem grípur til allra ráða til að komast yfir Ermarsund frá meginlandi Evrópu til Bretlands. Það telur meira öryggi til ólöglegrar dvalar í Bretlandi en innan Schengen-svæðisins og greiðir smyglurum um 3.000 pund á mann (rúmlega 500.000 ISK) fyrir far með manndrápskænu yfir sundið en 14.000 pund (2,4 milljónir ISK) í felum í ferju frá Santander á Spáni til Portsmouth í Englandi.

Þeir sem börðust fyrir BREXIT árið 2016 sögðu að úrsögn úr ESB yrði besta leiðin til að stöðva straum ólöglegra farandmanna til Bretlands. Af mörgu sem þá var hampað til að hvetja kjósendur til að greiða atkvæði með BREXIT hefur þetta reynst ein mesta blekkingin. Bresk stjórnvöld eru ráðalaus gegn vandanum. Innanríkisráðherrann boðaði á dögunum að ef til vill mætti slá á hann með því að setja hömlur á þá lögfræðinga í landinu sem ynnu markvisst að því að grafa undan lögmætum ákvörðunum stjórnvalda.

OIP-4-

Íslensk stjórnvöld hafa ekki lagað Schengen-aðildina að breyttum aðstæðum í útlendingamálum og alls ekki nýtt sér þá kosti til að sporna gegn ólögmætri komu fólks til landsins sem felst í aðildinni.

Nefnd allra flokka undir formennsku Óttars Proppé úr Bjartri framtíð samdi frumvarp að útlendingalögum á árunum um miðjan annan áratug þessarar aldar þegar bylgja farand- og flóttafólks flæddi yfir Evrópu án nokkurrar mótstöðu til dæmis í Þýskalandi og Svíþjóð með þeim afleiðingum að nágrannaþjóðir hertu reglur gegn ólöglegri komu fólks á sama tíma og liðkað var fyrir henni hér á landi með lögum frá 2016.

Á alþingi nú í vor tókst loks að setja dálitlar skorður í útlendingalöggjöfina en nú reyna þeir sem urðu undir við afgreiðslu málsins á alþingi að grafa undan breytingunum.

Ísland er eina landið í Evrópu sem er ekki með lokuð úrræði (e. detention center) fyrir fólk sem fer ekki að opinberum fyrirmælum, neitar að fara úr landi eða enginn veit deili á. Þeir sem leggjast gegn því að slíkt úrræði sé hér vilja hunsa Schengen-reglur og kröfur alþjóðlegs samstarfs.

Innan ríkisstjórnarinnar stendur VG gegn því að ákvæði í þessa veru sé lögfest og á þar samleið með Pírötum, Samfylkingu og Viðreisn. Þetta er einkennilegt samsafn flokka um þessa sérstöðu íslenskrar útlendingalöggjafar meðal annars í ljósi þess að þeir hafa allir haft eða hafa aðild Íslands að ESB á stefnuskrá sinni.