12.6.2020 9:14

Hagfræði ferðaþjónustunnar

Þetta er tímabær ádrepa nú þegar ferðaþjónustan er endurræst og menn hafa lært af reynslu undanfarinna 10 ára.

Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, minnir á það í viðtali við Baldur Arnarson í Morgunblaðinu í dag (12. júní) að ferðaþjónustan hafi vaxið hér undanfarin ár „með því að ráða til starfa á ári hverju fjölda aðfluttra starfsmanna sem felur í sér aðflutning fólks frá löndum sem eru yfirleitt með lægri laun“. Þessi láglaunagrein haldi uppi innlendum hagvexti en jafnframt sé kallað á hærri laun innan hennar „sem leiðir til þess að hún verður fyrir skakkaföllum. [...] Sú þróun var hafin í fyrra og hefði haldið áfram í ár ef ekki hefði verið fyrir faraldurinn,“ segir Gylfi.

Þá veltur prófessorinn fyrir sér þeirri spurningu hvort takmarka eigi fjölda erlendra ferðamanna í landinu og segir:

„Hver segir að allir sem vilji eigi að geta fengið lendingarleyfi í Keflavík? Fyrirkomulagið er til dæmis þannig víða annars staðar að leyfin eru gefin út í kvótum sem ganga kaupum og sölum milli flugfélaga. Með því að takmarka leyfin mætti tryggja að ferðamönnum fjölgi ekki nema um vissa tölu á ári svo fjöldinn fari ekki yfir þolmörk.“

Í fréttum um stöðu og framtíð Icelandair hefur verið á það minnst að hætta sé á því hverfi félagið að íslenskir flugrekendur missi mikilvæg „slot“ eða áunninn rétt og leyfi til að nýta ýmsa bestu flugvelli í Evrópu og Norður-Ameríku á góðum stað og tíma.

Loks bendir hagfræðiprófessorinn á að hætta sé á því að verði ferðaþjónustan aðalatvinnugreinin á Íslandi verði landið um leið láglaunaland. Betra sé að „kraftar einkafjármagnsins fari í að skapa betri störf.“ Gylfi Zoëga segir:

„Þá fá fleiri betri störf að lokinni skólagöngu og flytjast síður til útlanda. Svíar gerðu þetta á níunda áratugnum þegar stór iðnaður, á borð við skógrækt og stáliðnað, stóð ekki lengur undir lífskjörunum og bjuggu til umhverfi svo að þekkingarfyrirtæki og hátæknifyrirtæki gætu þrifist. Þetta var einnig gert í Danmörku og Finnlandi. Það er gott að hafa ferðaþjónustu. Hún er góð búbót, einkum í sveitum landsins, en ekki góð sem leiðandi atvinnugrein.“

Þetta er tímabær ádrepa nú þegar ferðaþjónustan er endurræst og menn hafa lært af reynslu undanfarinna 10 ára. Ísland er kynnt sem dýrt hágæðaland og þá verður aðbúnaður og þjónusta að vera í samræmi við endurgreiðsluna sem krafist er fyrir að njóta þess sem er í boði.

Imgp5458Myndin er af vefsíðu þjóðgarðsins á Þingvöllum og sýnir ferðamenn horfa yfir han.

Þessi greining á stöðu ferðaþjónustunnar er reist á rökum hagfræðinnar og því sem við þekkjum og sjáum allt í kringum okkur í landinu. Aðrir vilja að tilfinningar og láglaunasjónarmið fái að ráða eins og birtist í leiðara Aðalheiðar Ámundadóttur í Fréttablaðinu miðvikudaginn 10. júní en honum lauk á þessum orðum:

„Það er sorgleg hagfræði að telja sannað að okkur farnist best að vera áfangastaður hinna efnameiri og það er hvorki gestrisni né djúp lífsspeki að velja sér vini eftir því hversu ríkir þeir eru.“