8.5.2020 9:17

Guðmundur í Brimi og samkeppniseftirlitið

Guðmundur sagði af sér forstjórastarfinu af því að hann taldi skynsamlegra að verja kröftum sínum í annað en stríð við starfsmenn samkeppniseftirlitsins.

Í aðdraganda þess að Íslendingar gerðust aðilar að EES var verðlagseftirlitið afnumið og samkeppniseftirlit kom í staðinn. Áratugum sama lifðu menn í þeirri trú hér að besta leiðin til að hemja verðbólgu væri að ríkið yrði að ákveða hvort hækka mætti verð á vöru og þjónustu. Deilt var á ríkisstjórnarfundum um hvort hækkanir mættu verða einu prósentinu hærra eða lægri. Það var pólitískt trúaratriði hjá sumum að halda í þetta kerfi, meira að segja eftir að verðbólgan fór yfir 100% þrátt fyrir að það væri við lýði.

Auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig hagkerfi þróaðist við þessar aðstæður þegar menn reyndu að fara í kringum þessa ofstjórn. Meira að segja núna á þessum óvenjulegu tímum reyna fyrirtæki að ganga lengra en góðu hófi gegnir til að hafa fé af skattgreiðendum á sama tíma og eigendur þeirra greiða sér fúlgur í arð!

1093945Guðmundur Kristjánsson í Brimi (Mynd: mbl.is)

Í Kastljósi sjónvarpsins var í gærkvöldi (7. maí) rætt við Guðmund Kristjánsson, farsælan útgerðarmann og fráfarandi forstjóra útgerðarfélagsins Brims. Hann sagði af sér forstjórastarfinu af því að hann taldi skynsamlegra að verja kröftum sínum í annað en stríð við starfsmenn samkeppniseftirlitsins. Hann telur að rannsóknir þeirra persónulega herferð á hendur sér en eftirlitið stofnar til hverrar rannsóknarinnar eftir aðra í tengslum við viðskipti og umsvif tengd nafni Guðmundar.

Þegar hlustað er á lýsingar Guðmundar á starfsháttum samkeppniseftirlitsins vaknar spurning um hvort hér sé ofríki á þessu sviði í stað réttarríkis. Hvernig stendur til dæmis á því að í 10 ár standi yfir samkeppnisrannsókn á Eimskip? Nýlega voru fréttir um að samkeppniseftirlitið beitti sér fyrir því að versluninni Krónunni á Hvolsvelli yrði lokað af því að eigandinn ætti bensínstöð hinum megin við götuna. Koma Krónunnar til Hvolsvallar olli byltingu í þjónustu þar. Verði henni lokað að kröfu samkeppniseftirlitsins vegna bensínstöðvar ætti að setja upp sérstakan skjöld á staðnum ofríkinu til heiðurs.

Það var óheppilegt hjá Guðmundi Kristjánssyni að líkja stöðu sinni gagnvart samkeppniseftirlitinu við það hvernig Jón Ásgeir Jóhannesson kveinkaði sér í upphafi aldarinnar yfir rannsóknum á viðskiptaháttum sínum. Þær voru alls ekki tilefnislausar eins og dómar sýna en drógust á langinn því að lögmenn Jóns Ásgeirs og fjölmiðlar hans beittu öllum ráðum til að tefja málareksturinn. Jón Ásgeir kvartaði ekki undan harðræði af hálfu samkeppniseftirlitsins.

Það er rétt hjá Guðmundi Kristjánssyni að gegnsæi er lykilorð þegar um stórrekstur á borð við hans er að ræða. Gegnsæi á auðvitað einnig að ríkja í störfum samkeppniseftirlitsins.

Spyrill sjónvarpsins dró upp mál sem eiga ekkert skylt við Guðmund Kristjánsson og lagði þau undir dóm hans í þættinum. Það var eins og um væri að ræða einhvern gátlista sem spyrlinum hefði verið falið að tæma. Við þetta breytist samtal í yfirheyrslu þar sem að hoppað er úr einu í annað. Hjá áhorfanda vaknar spurning um hvort tilgangurinn sé að nota viðmælandann til að hampa einhverjum málum sem fréttastofunni eru kær.