8.8.2023 11:06

Grátt svæði í Svartahafi

Svartahaf er víða grátt þegar kemur að samskiptum NATO-þjóða og Rússa sem kallar á hættu á beinum átökum herja NATO-ríkja og Rússa.

Fyrr í sumar (9. júní) var skýrt frá því á vefsíðunni Navalnews að gervihnattarmyndir sýndu að Rússar hefðu hert varnir sínar gegn árásum á leynilega kafbátahöfn við Barentshaf á Kólaskaga. Um væri að ræða fljótandi girðingu eins og þær sem settar hefðu verið í Svartahaf til að verja hafnir á Krímskaga gegn árásum Úkraínumanna.

Í þessari frétt í júní um varúðarráðstafanir, sem mörgum þóttu undarlegar á norðurslóðum, var rifjað upp að Úkraínumenn hefðu í október 2022 notað fljótandi dróna til að ráðast á helstu höfn Svartahafsflota Rússa, Sevastopol á Krímskaga. Síðan hefðu Rússar aukið varnir hafnarinnar með fljótandi girðingum. tundurskeytanetum auk flugskeyta og djúpsprengjuvörpum. Sambærilegar varúðarráðstafanir hefðu verið gerðar til varnar öðrum herstöðvum Rússa á Krímskaga.Navalnews frá í júní er rifjuð upp núna vegna nýrrar sóknar Úkraínumanna ­– sem ráða ekki yfir öðrum herskipum en smábátum – gegn Rússum á Svarthafi.

170306_commentary_black_seaKortið sýnir löndin sem liggja að Svartahafi. Grænu löndin eru í NATO. Ljósgrænu eru samstarfsríki NATO sem Rússar vilja sölsa undir sig. Krímskagi er dökkgulur eins og önnur svæði sem Rússar hafa á sínu valdi - heiti svört á rauðum grunni. Þarna eru flotahafnir Rússa, Sevastopol og Novorossiirsk, merktar með hring og herskipum. Úkraínumenn hafa valdið tjóni í báðum höfnum með tundurskeytadrónum, sl. föstudag (4. ágúst) í Novorossiirsk. Þá er Kertjssund (Kerch) milli Azovhafs og Svartahafs einnig merkt. Þar skutu Úkraínumenn tundurskeytadróna á olíuskip sl. laugardag (5. ágúst).

Aðfaranótt föstudagsins 4. ágúst sendu þeir tundurskeytadróna rúmlega 700 km leið þvert yfir Svartahaf og hittu rússneskt herskip, landgönguskip sem sent hafði verið frá Norðurflotanum suður í Svartahaf til að styrkja flotann í Úkraínustríðinu. Aðfaranótt laugardagsins 5. ágúst var úkraínskur tundurkeytadróni sendur á rússneskt olíuskip í Kertjssundi milli Azovhafs og Svartahafs.

Volodymyr Zelnskíj Úkraínuforseti sagði þriðjudaginn 8. ágúst við argentíska dagblaðið La Nacion að hætti rússneski herinn ekki að ráðast á hafnir í Úkraínu kynnu þeir að missa öll skip sín á Svartahafi.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti rifti um miðjan júlí 2023 samkomulagi frá í fyrra sem gert var fyrir milligöngu Tyrkja undir forsjá Sameinuðu þjóðanna um útflutning á korni frá Úkraínu. Síðan hóf rússneski herinn loftárásir á hafnir Úkraínu til að hindra kornútflutning þaðan. Rússar réðust meira að segja á höfn í bænum Izmail við Dóná, nokkur hundruð metra frá Rúmeníu.

Verði tekið fyrir flutning á rússneskri olíu frá höfnum við Svartahaf leiðir það til hækkana á heimsmarkaðsverði en verður einnig efnahagslegt áfall fyrir Rússa. Verði komið í veg fyrir að Rússar geti stundað flutninga sjóleiðis til herliðs síns í Sýrlandi sverfir fljótt að því vegna skorts á öllu til að halda liðinu úti.

Svartahaf er víða grátt þegar kemur að samskiptum NATO-þjóða og Rússa sem kallar á hættu á beinum átökum herja NATO-ríkja og Rússa.

Þrjú NATO-ríki eiga fjórar mikilvægar hafnir við Svartahaf: Rúmenía, Búlgaría og Tyrkland.  Samstarfsríki NATO: Úkraína og Georgía eiga land að Svartahafi. Þá eiga þrjú önnur NATO-samstarfsríki: Moldóva, Armenína og Azerbaidjan þar mikilla hagsmuna að gæta.

Vilji Tyrkir tryggja hernaðarlega lágspennu á hafinu verða þeir að láta að sér kveða af meiri þunga gagnvart Rússum í diplómatískum samskiptum. Þeir geta ekki endalaust krafist þess að NATO-þjóðir haldi að sér höndum og auðveldi þannig Pútín að herða sultaról fátækustu þjóða heims.