20.2.2019 10:12

Góður grunnur frá ríkisstjórninni

Það er rétt mat hjá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að tillögur ríkisstjórnarinnar skipta verulegu máli fyrir allan almenning þótt annað sé látið í veðri vaka af verkalýðsleiðtogum.

Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að fulltrúar launþega í kjaraviðræðunum tali á þann veg sem þeir gera eftir að ríkisstjórnin kynnti framlag sitt til viðræðnanna í gær, þriðjudaginn 19. febrúar. Það er eðlilegur gangur í viðræðum af þessu tagi.

Það er rétt mat hjá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að tillögur ríkisstjórnarinnar skipta verulegu máli fyrir allan almenning þótt annað sé látið í veðri vaka af verkalýðsleiðtogum. Jafnan er erfitt fyrir ríkisstjórn að finna tímapunkt til að kynna það sem hún telur sér fært að gera í stöðu sem þessari. Um leið og framlagið er opinbera er litið á það sem orðinn hlut og síðan er róið eftir meiru.

1115105Viðræðunefnd Starsfgreinasambands Íslands kom saman að morgni miðvikudags 20. febrúar og birtist þessi mynd frá fundinum á mbl.is.

Það eru vissulega nokkur tímamót að í tillögunum um skattabreytingar leggur Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, fram hugmynd um þriðja skattþrepið. Hann hefur lengi og oft talað gegn þriggja skattþrepa kerfi. Tillaga hans nú sýnir mikla viðleitni til að koma til móts við sjónarmið viðmælendanna. Erfitt er að sjá að þeir meti það nokkurs. Meira ber á því í málflutningi þeirra að nú verði að þétta raðirnar til verkfallsátaka þótt þeir viti manna best að bölvun þeirra bitnar að lokum mest á umbjóðendum þeirra sjálfra.

Sósíalistarnir í Eflingu stéttarfélagi fengu Stefán Ólafsson og Indriða H. Þorláksson til að dusta rykið af gömlum skattatillögum. Þær eru í ætt við úrræði François Hollandes, forseta franskra sósíalista, fyrir nokkrum árum. Frá framkvæmd þeirra var fallið þegar öllum varð ljóst að dauð hönd hvíldi á frönsku fjármála- og efnahagslífi.

Katrín Jakobsdóttir minnir nú á að við myndun ríkisstjórnar hennar var ákveðið að taka ekki upp hátekjuskatt. Stjórn sín sé hins vegar reiðubúin til að beita sér fyrir risavaxinni innspýtingu í húsnæðismál, réttlátara skattkerfi, lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði og margvíslegum breytingum hvað varðar félagsleg undirboð og leiguverð auk aðgerða sem stuðla að lægra vaxtastigi, draga úr áhrifum verðtryggingar og styðja við fyrstu íbúðarkaup.

„Þetta er allt að umfangi um það bil þrjátíu milljarðar á um þremur árum,“ sagði forsætisráðherra í ríkisútvarpinu í morgun (20. febrúar) og bætti við: „En það er kannski ekki stóra spurningin heldur það að þetta eru allt kerfisbreytingar sem stuðla hér að miklum samfélagslegum umbótum.“

Óvissan ein og hótanir um verkföll valda nú þegar efnahagslegum skaða. Menn hika við töku ákvarðana um framkvæmdir og viðskipti. Tillögur ríkisstjórnarinnar leggja góðan grunn að lausn þessarar deilu.