2.5.2022 10:21

Gamlar lummur í fréttum

Þarna framreiðir fréttastofan fyrir hlustendur stórskemmdan fjölmiðlarétt eins og um nýmeti sé að ræða, rétt sem rann út á tíma fyrir mörgum áratugum.

Vara-leiðtogi breska Verkamannaflokksins magnaði sjálf upp draug sem hún lýsti síðan sem ofsóknum gegn sér til að bjarga Boris Johnson. Atvikið varð meira að segja til þess að forseti neðri deildar breska þingsins kallaði ritstjóra The Mail on Sunday og stjórnmálaritstjórann sem skrifaði fréttina fyrir sig. Þeir höfnuðu boðinu. Nú iðrast þeir opinberlega sem trúðu að karlremba og kvenfyrirlitning hefðu ráðið ferð gegn Angelu Rayner.

Mail-blöðin í Bretlandi eru ekki hæst skrifuðu fjölmiðlar þar þrátt fyrir vinsældir, vefsíðan MailOnline er ein mest sótta vefsíða í heimi. Ástæðan er fjölbreytt fréttaval og harka við að fylgja því fram sem talið er fréttnæmt og eiga erindi við almenning. Í því tilviki sem hér um ræðir tók það ritstjórnina viku að rétta sinn hlut og afhjúpa tvöfeldni Angelu Rayner, vara-leiðtoga. Hún á örugglega undir högg að sækja gagnvart fleirum en Mail-blöðunum eftir þessa átakalotu.

Sambærileg staðfesta meðal fjölmiðlamanna er því miður fágæt hér. Þetta blasir til dæmis við í stjórnmálaumræðum þegar fréttir eru birtar af því sem Gunnar Smári Egilsson, forystumaður Sósíalistaflokks Íslands, hefur fram að færa. Ætla mætti að hann væri í íslenskri fjölmiðlaklíku sem er gjörsamlega laus við alla gagnrýni á það sem er satt eða frambærilegt til að halda að lesendum eða hlustendum í fréttum. Eitt er að birta greinar Gunnars Smára annað að gefa þeim stimpil og vitna í þær í fréttatímum eða fréttaskýringarþáttum, leggja að jöfnu við það sem er satt og rétt.

Ikmages_1651486852203Örn Arnarson, ritstjórnarfulltrúi á Viðskiptablaðinu, er í hópi íslenskra fjölmiðlamanna sem er misboðið. Hann vekur máls á því í grein í dag (2. maí) að í morgunfréttum Bylgjunnar og Stöðvar 2 hafi landsmönnum verið flutt „þau stórkostlegu tíðindi að Gunnar Smári Egilsson, áhrifavaldur á samfélagsmiðlum, [teldi] kapítalismann og markaðshagkerfið ómögulegt – jafnvel kolómögulegt.“

Þarna framreiðir fréttastofan fyrir hlustendur stórskemmdan fjölmiðlarétt eins og um nýmeti sé að ræða, rétt sem rann út á tíma fyrir mörgum áratugum.

Þegar talið er að stjórnmálamönnum verði eitthvað á í messunni fara fjölmiðlamenn oft í þann ham að tala um samanburð við útlönd, þar hefði stjórnmálamaður í svipuðum sporum örugglega sagt af sér. Allt eru það vangaveltur. Hitt má fullyrða að léti bragðarefur á borð við Gunnar Smára Egilsson að sér kveða í stjórnmálalífi annarra landa hefðu fjölmiðlamenn séð við honum, þó ekki væri nema í þágu hlustenda sinna og lesenda. Þeir þyrftu ekki einu sinni viku til að gera það, þeim dygði einn dagur. Örn Arnarson segir réttilega í pistli sínum:

„Það verður áhugavert að fylgjast með hvort fréttastofa Bylgjunnar og Stöðvar 2 haldi áfram á þessari braut og flytji fréttir af því í hvert sinn sem Gunnar Smári stingur niður penna og segir frá því hvað honum þykir markaðsskipulagið sem hefur stuðlað að vexti og velmegun á Vesturlöndum vera ömurlegt. Ef það verður raunin er hætt við því að fátt annað komist í fréttatímana á þeim bænum.“