22.1.2024 9:12

Gagnsæ yfirbót Svandísar

Eins og við mátti búast af Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra ætlar hún að sitja áfram í embætti sínu þrátt fyrir að hafa gefið út reglugerð gegn hvalveiðum án lagaheimildar.

Eins og við mátti búast af Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra ætlar hún að sitja áfram í embætti sínu þrátt fyrir að hafa gefið út reglugerð gegn hvalveiðum án lagaheimildar og farið að ráðum fagráðs sem fór út fyrir umboð sitt og túlkaði lög án þess að hafa fagleg sjónarmið í heiðri.

1462931Svandís Svavarsdóttir (mynd: mbl.is/Kristinn Magnússon).

Svandís segir í færslu á Facebook 22. janúar, sama dag og alþingi kemur saman eftir jólaleyfi, að ráðuneytismenn hafi gefið henni ráðgjöf um að gefa út heimildarlausa reglugerð og ráðuneytismenn gefi henni einnig það lögfræðilega álit að það sem umboðsmaður alþingis hafi að segja „gefi ekki tilefni til sérstakra viðbragða“. Það sé raunar í samræmi við niðurstöðu umboðsmanns „en hann beinir ekki sérstökum tilmælum um úrbætur til mín“ segir Svandís og skautar þannig fram hjá því að umboðsmaður taldi tilvikið sem um var fjallað í áliti hans liðna tíð og þess vegna ekki ástæðu til sérstakra tilmæla til ráðherra „um úrbætur þar að lútandi“.

Til að breiða frekar yfir þessi embættisglöp sín boðar Svandís síðan að „óháðum aðila“ verði falið „að fara yfir stjórnsýslu og lagaumgjörð hvalveiða, þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins, og valdheimildir stjórnvalda á þeim grundvelli“. Álitsgjafinn geri jafnframt tillögur að úrbótum.

Þarna er sem sagt vikið að „verklagsreglunum“ en það er algengt viðkvæði hjá þeim sem eru í sömu sporum og Svandís núna að skjóta sér á bak við gallaðar „verklagsreglur“. Það breytir engu um efni þessa máls eða því að teknar séu ákvarðanir sem brjóta gegn gildandi reglum.

Þá ætlar Svandís „að fela ríkislögmanni að leggja mat á framkomið erindi Hvals hf. þar sem félagið óskar eftir viðræðum við ríkið um mögulegt uppgjör vegna álitsins“. Hvalur hf. hefur boðað skaðabótamál á hendur ríkinu vegna ákvarðana Svandísar. Hvort hún kallar það mál „framkomið erindi“ eða á við eitthvað annað er ekki ljóst.

Undir lokin segist Svandís grípa „til þessara skýru viðbragða í ljósi þess að mikilvægt [sé] að stjórnvöld beri virðingu fyrir eftirlitsstofnunum og sýni það í verki“. Þetta er gagnsætt eins og annað í þessari viðleitni ráðherrans til að bjarga orðspori sínu og pólitísku skinni.

Ráðherrann klykkir út með almæltum tíðindum: „Umboðsmaður Alþingis gegnir mikilvægu hlutverki í eftirliti með stjórnsýslu ríkisins í okkar lýðræðissamfélagi.“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur boðað tillögu um vantraust á matvælaráðherra við upphaf þings í dag. Hún vill draga skil á milli hvalveiða annars vegar og þess sem hún segir lögbrot ráðherrans hins vegar. Vantrauststillagan snúist um lögbrotið.

Þegar þetta er skrifað situr ríkisstjórnin á fundi og þingflokkar hennar eiga eftir að koma saman áður en þingfundur verður settur klukkan 15.00. Á þessum fundum sitja menn vafalaust yfir þessari yfirlýsingu matvælaráðherra og bera hana saman við önnur gögn. Það verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður.

Brýn mál bíða þings. Ekki verður lengur þolað að óvissa ríki um stefnu ríkisstjórnar og þings um framtíð Grindavíkur.