30.10.2018 10:12

Furðugrein um öryggismál

Við brottförina var ákveðið að hluti gamla varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli yrði öryggissvæði.

Löngum hefur fylgt aðild Íslands að NATO og varnarsamstarfinu við Bandaríkin að hér birtist furðufréttir um öryggis- og varnarmál. Á níunda áratugnum varð til dæmis hvað eftir annað uppnám á vettvangi stjórnmála og ríkisútvarpsins vegna fullyrðinga um að hér á landi leyndust kjarnorkuvopn. Bandaríkjamenn fælu þau í einhverjum afkimum Keflavíkurstöðvarinnar.

Í kringum 1983 þegar hafist var handa við að reisa nýja flugstöð á vellinum var því meðal annars haldið fram að stærð hennar tæki mið af því að þar ætti að leynast stjórnstöð í þágu kjarnorkuhernaðar. Allt reyndist þetta argasti hugarburður eins og sannaðist við brottför varnarliðsins 30. september 2006. Ekki fundust neinir kjarnorku-afkimar í Keflavíkurstöðinni.

Við brottförina var ákveðið að hluti gamla varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli yrði öryggissvæði, aðstaðan þar yrði nýtt sem framlag Íslendinga til sameiginlegra varnaraðgerða vegna NATO-aðildarinnar. Er þetta svæði nú undir stjórn Landhelgisgæslu Íslands (LHG) og nýtist í þágu orrustuflugsveita sem annast loftrýmisgæslu héðan, fyrir kafbátaleitarvélar og aðrar hernaðarlegar flugvélar. Á svæðinu er einnig stjórnstöð ratsjárkerfisins sem LHG rekur í þágu NATO.

KEFIMG_0497Hér er mynd af vefsíðu LHG sem sýnir flugskýli á öryggissvæðinu við Keflavíkurflugvöll.

Virgil Scheving Einarsson sem vann fyrir bandaríska varnarliðið á sínum tíma og bjó lengi í Skotlandi en titlar sig nú sem landeiganda á Vatnsleysuströnd skrifar grein í Morgunblaðið í dag (30. október). Kvartanir hans undan því að Íslendingar geri ekki eigið öryggi að féþúfu með gjaldtöku af NATO og Bandaríkjamönnum minna á svonefnda aronsku á sínum tíma. Hann vill að á Egilsstöðum verði reist flugherstöð. Hann telur ratsjárkerfið í landinu úrelt og skilur ekki við hvað sé átt með öryggissvæði. Þá segir hann krabbameinsvaldandi geislun frá fjarskiptamastri í Grindavík.

Nýleg æfing kafbáta við Ísland hafi hrakið háhyrninga upp á land „í miklum mæli“. NATO sé að gliðna, Frakkar og Þjóðverjar telji það úrelt. Íslendingar séu svo „treggáfaðir“ að þeir haldi enn að hér hafi verið varnarlið. Við höfum verið „kjölturakkar“ árin 1951 til 2006. Viðskilnaður Bandaríkjamanna hér hafi verið „hroðalegur“.

Kveikjan að þessu framlagi til umræðna um íslensk öryggismál er sú að „í austanátt á Vatnsleysuströnd“ þar sem Virgill býr „er greinilega lykt af brennandi flugvélaeldsneyti og hljóðmengun hefur stóraukist nú síðustu ár“. Hann segir þetta þó ekki vandamál hjá sér „enda bara sjö km að brautarenda“.

Á netinu má sjá gamla grein eftir Virgil þar sem hann kvartar undan því að ritstjóri DV hafi hætt að birta greinar eftir sig um öryggismál. Varla hefur blaðið skaðast við það.