21.9.2021 16:06

Fundarferð í hausthvelli

Í máli manna var lýst undrun yfir hve fjölmiðlamenn létu þetta mál sig litlu varða auk þess sem kjósendur settu landbúnaðarmál í neðstu skúffu með ESB-málum.

Í frétt á ruv.is þriðjudaginn 21. september stendur:

„...lokaði Vegagerðin þjóðvegi eitt um Öxnadalsheiði og Fljótsheiði á tólfta tímanum. Þar höfðu ökumenn lent í vandræðum enda nær allir enn þá á sumardekkjum. Starfsmaður Vegagerðarinnar sagði í samtali við fréttastofu að alllöng bílaröð hafi myndast sitt hvoru megin við Öxnadalsheiði og ökumenn biðu eftir að þeir kláruðu að hreinsa af veginum. Um hálf eitt var opnað aftur fyrir umferð og færð á Norðurlandi hefur batnað eftir því sem liðið hefur á daginn.“

20210920_203517Frá landbúnaðarfundinum að Hrafnagili að kvöldi mánudags 20. september 2021.

Þessi frétt kom mér ekki á óvart. Þegar við Kristján Þór Júlíusson ókum upp á heiðina að norðan nokkru fyrr í morgun var augljóst í hvað stefndi. Í gærkvöldi vorum við á fjölmennum fundi frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins  með bændum í Eyjafjarðarsveit að Hrafnagili og ræddum landbúnaðarstefnuna Ræktum Ísland! og hlaut hún góðar undirtektir. Í máli manna var lýst undrun yfir hve fjölmiðlamenn létu þetta mál sig litlu varða auk þess sem kjósendur settu landbúnaðarmál í neðstu skúffu með ESB-málum.

Síðdegis í gær var varað við að veður kynni að trufla ferðalög í dag. Í von um að geta flogið frá Akureyri til Reykjavíkur ákvað ég að færa flugbókun mína fram. Það dugði ekki. Á Akureyrarflugvelli var klukkan 08.00 sagt að næst yrði kannað með flug um klukkan 11.00. Strax upp úr 08.00 ákváðum við að aka suður. Þegar komið var til borgarinnar kl. 13.20 bárust boð um að næst yrði athugað með flug til Akureyrar kl. 17.10,

Þegar dró að Öxnadalsheiði tók að snjóa. Bíll fór löturhægt á undan okkur upp en við blasti að hann mundi stöðva vegna krapans. Við ókum fram hjá honum og í vaxandi snjókomu upp á heiðina. Þegar tók að halla undan fæti hvarf snjórinn. Í Skagafirði rigndi mikið og síðan alla leiðina til Reykjavíkur með smá uppstyttu á Holtavörðuheiði, nú er ekið niður af henni á suðurleið eftir nýlögðum og þægilegum vegi.