28.8.2023 10:07

Fullveldi á flokksráðsfundi

Formaður Félags Sjálfstæðismanna um fullveldismál reyndi ekki að bera tillögu sína um áskorunina á utanríkisráðherra undir alla fundarmenn. 

Fundarmenn í flokksráði sjálfstæðismanna skiptust í umræðuhópa laugardaginn 26. ágúst og fjölmenntu þeir í hóp þar sem rætt var um EES-mál. Fyrir fundinn hafði Arnar Þór Jónsson varaþingmaður sagt á FB-síðu sinni:

„Á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn verður nk. laugardag, 26. ágúst, mun ég f.h. Félags Sjálfstæðismanna um fullveldismál (FSF) leggja fram tillögu til ályktunar sem hljómar svo: Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hvetur utanríkisráðherra til að draga til baka frumvarp til laga um breytingar á lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 (bókun 35). Sjálfstæðisflokkurinn mun standa vörð um fullveldi Íslands og frelsi þjóðarinnar til að setja sín eigin lög án ytri þvingunar.“

Tillagan var kolfelld í umræðuhópnum en stjórnandi hans tók út eina setningu: „Sjálfstæðisflokkurinn mun standa vörð um fullveldi Íslands.“ Er hún í stjórnmálaályktun fundarins. Fyrir þá sem þekkja stefnu flokksins, ályktanir hans og sögu er ekkert nýmæli að ályktað sé í þessa veru enda hefur það frá upphafi verið markmið flokksins að tryggja sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar samhliða einstaklingsfrelsi til orð og athafna.

Formaður Félags Sjálfstæðismanna um fullveldismál reyndi ekki að bera tillögu sína um áskorunina á utanríkisráðherra undir alla fundarmenn.  Til þess hafði hann óskorað svigrúm. Hann „las“ líklega fundinn þannig að tillaga hans nyti einskis stuðnings og tók víst ekki einu sinni til máls eða varpaði fram fyrirspurn til utanríkisráðherra þegar tækifæri gafst til þess.

370937757_688377260002984_9024050653808516138_nFrá flokksraðsfundi sjálfstæðismanna 26. ágúst 2023.

Í frétt Morgunblaðsins í dag 28. ágúst um flokksráðsfundinn býsnast Arnar Þór yfir því sem hann kallar „reglugerðarverksmiðjuna í Brussel“ en ljóst er af lestri skrifa hans á FB og athugasemda stuðningsmanna hans að ESB, WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin) svo að ekki sé minnst á World Economic Forum í Davos eru þau öfl í heiminum sem helst ber að varast.

Þess skal getið að vegna greinar minnar í Morgunblaðinu laugardaginn 26. ágúst sagði Arnar Þór á FB-síðu sinni sama dag:

„Björn Bjarnason á þakkir skildar fyrir að birta vonda grein sína í sunnudagsblaði Moggans. Hún afhjúpar að hann hefur orðið viðskila við grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins.“

Þarna birtist það sem kallað er „slaufun“ í samtímanum: að útiloka beri þá sem maður er ósammála.

Í dag (28. ágúst) segir Arnar Þór á FB-síðu sinni:

„Umræða um þetta kjarnaatriði [forræði alþingis yfir lögum] hefur verið jaðarsett í Sjálfstæðisflokknum og menn eins og Björn Bjarnason reyna að smætta sjálfstæðisstefnuna niður í að hún snúist nú aðeins um frelsi einstaklingsins.“

Sé fullveldi ríkisins túlkað á þann veg sem Arnar Þór krefst til að þrengja að rétti og frelsi einstaklingsins sem skapast hefur með EES-aðildinni á að ræða leið til hæfilegs jafnvægis í anda sjálfstæðisstefnunnar. Það er ekki gert með aðferðum „slaufunar“ eða ásökunum um „smættun“, hvað sem það nú er í þessu tilliti.

Fylgjendur Arnars Þórs fagna skrifum hans og einn ákafasti þeirra segir: „Takk þarf nýjan þjóðarflokk.“