1.4.2023 13:04

Fréttablaðið leggur upp laupana

Saga Fréttablaðsins hófst árið 2001. Þegar það var komið fjárhagslega að fótum fram sumarið 2002 keyptu Bónus- eða Baugsmenn blaðið með leynd af Gunnari Smára Egilssyni.

Fréttablaðið kom út í síðasta sinn föstudaginn 31. mars. Frásagnir starfsmanna bera þess merki að lokun blaðsins hafi komið þeim í opna skjöldu þótt vitað hafi verið að í óefni stefndi þegar hætt var um áramótin að dreifa fríblaðinu á heimili og það sett í kassa á sundstöðum og í verslunum.

Fór ekki fram hjá okkur sem sækjum Laugardalslaugina snemma morguns að Fréttablaðið lægi þar frammi því að þrír plastpakkar af blaðinu voru þar við dyrnar um klukkan þegar opnað var klukkan 06.30. Starfsmenn laugarinnar settu blaðið í dreifingarkassann.

IMG_6621

Á lokavikum Fréttablaðsins var því dreift á þennan hátt í Laugardalslauginni.

Fríblöð hafa verið talin þjónustublöð við almenning án þess að útgáfan hafi að markmiði að umbreyta heiminum. Blöðunum er ætlað að auðvelda lesendum að njóta dagslegs lífs og fræðast um staðinn sinn og nágrenni. Fríblöðum fækkar óðfluga enda á allur almenningur greiðan aðgang að öllum daglegum upplýsingum í símanum sínum og mun auðveldara er að rýna í hann en að opna dagblað, til dæmis í járnbrautarlestum.

Saga Fréttablaðsins hófst árið 2001. Þegar það var komið fjárhagslega að fótum fram sumarið 2002 keyptu Bónus- eða Baugsmenn blaðið með leynd af Gunnari Smára Egilssyni og félögum. Það var ekki fyrr en 2. maí 2003 sem upplýst var um eignarhald auðmannanna á blaðinu en tveimur mánuðum áður, í mars 2003, hafði það snúist af hörku gegn Davíð Oddssyni forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokknum til stuðnings Samfylkingunni í þingkosningum vorið 2003.

Blaðið stóð þétt við bakið á eigendum sínum á meðan Baugsmálið svonefnda var á döfinni. Rek ég þá sögu alla ítarlega í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi sem kom út árið 2011 og fékk óblíðar móttökur hjá stuðningsmönnum Baugsmanna og fjölmiðlaveldi þeirra. Baugsmenn eða arftakar þeirra áttu Fréttablaðið til ársins 2018 þegar Helgi Magnússon, fjárfestir og endurskoðandi, keypti blaðið og hefur kostað útgáfu þess síðan. Helgi var einn stofnenda Viðreisnar vorið 2016 til að vinna að aðild Íslands að Evrópusambandinu og hefur Fréttablaðið fylgt þeirri stefnu auk þess sem aðhaldsleysi í útlendingamálum hefur einkennt ritstjórnarstefnu þess.

Fastir dálkahöfundar hafa að jafnaði haft horn í síðu Sjálfstæðisflokksins. Sú óvild hefur verið augljóst haldreipi blaðsins frá því að leyndin hvarf af eigendahópnum fyrir 20 árum.

Eitt helsta pólitíska átakamál fyrstu ára 21. aldarinnar, fjölmiðlamálið, varð til þess að Baugsmenn virkjuðu meðal annars forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, til stuðnings við sig og í júní 2004 var synjunarheimild forseta á lögum fyrst beitt í þeirra þágu. Vinstri slagsíða hefur sem sagt alla tíð verið á þessu fríblaði auðmannanna.,

Gunnar Smári Egilsson er enn við fjölmiðlastörf, nú í þágu sósíalista og aðgerðarsinna. Jón Ásgeir Jóhannesson, leiðtogi Baugsmanna, er ekki alfarið hættur afskiptum af fjölmiðlastarfsemi. Fjölmiðlaráðherrann, Lilja D. Alfreðsdóttir, hefur ekki kynnt neinar haldgóðar tillögur til að skapa viðunandi starfsumhverfi íslenskra fjölmiðla við núverandi aðstæður.