31.3.2022 11:16

Framtíðarnefnd alþingis hjá Finnum

Framtíðarnefndarmenn alþingis fá vonandi tækifæri til að kynnast hátækni og aðferðum sem Finnar nýta til að verjast fjölþátta árásum.

Finnska öryggislögreglan, Supo, birti þriðjudaginn 29. mars opinbera viðvörun þar sem finnsk stjórnvöld og almenningur eru hvött til að búa sig undir fjölþátta árásir (e. hybrid attacks) frá Rússum vegna umræðna í Finnlandi um aðild að NATO.

„Allir í Finnlandi ættu að búa sig undir margvíslegar aðgerðir af hálfu Rússa til að hafa áhrif á þá stefnu sem mótuð verður í Finnlandi varðandi NATO,“ segir í Antti Peltarri, forstjóri Supo, í nýjustu ársskýrslu stofnunarinnar. Hann segir að sú skylda hvíli á opinberum stjórnvöldum að skapað sé þvingunarlaust svigrúm til að ræða NATO-aðildina og tryggt sé að óboðnir geti ekki haft áhrif á finnskar ákvarðanir um öryggismál.

Í skýrslunni er bent á að Rússar kunni að beita sér á víðtækan hátt í Finnlandi meðal annars með njósnum um einstaklinga og fullyrðingum um saknæmt athæfi, þá kunni fólk í Finnlandi með tengsl við Rússland að sæta áreiti, stjórnmálamenn að verða beittir kúgun af einhverju tagi og dreift verði fölsuðum myndskeiðum til að sverta mannorð einhverra.

Varað er við netárásum á orkufyrirtæki samhliða því sem allir eru hvattir til að huga vel að öryggisvörnum fyrir tölvukerfi fyrirtækja og einkatölvur.

Í blaðinu Helsingin Sanomat birtist miðvikudaginn 30. mars niðurstaða könnunar sem sýndi 61% stuðning við aðild Finnlands að NATO en undanfarna áratugi hefur stuðningurinn mælst á bilinu 20-25%. Fyrir tveimur vikum birti finnska ríkisútvarpið, YLE, niðurstöðu könnunar sem sýndi 62% stuðning við NATO-aðild meðal Finna.

Finnskir þingmenn ræða á næstunni stefnuna í öryggis- og varnarmálum eftir innrás Rússa í Úkraínu. Þeir benda á að þrýstingur af hálfu Rússa sé ekkert nýnæmi fyrir þá. Á hinn bóginn þurfi einnig að huga að þrýstingi Rússa gagnvart þingmönnum NATO-landanna sjálfra. Finnar gangi ekki í NATO nema fulltrúar allra aðildarríkjanna 30 samþykki það. Takist Rússum að beita einhverja stjórnmálamenn í einhverju landanna svo miklum þrýstingi ekki verði stuðningur við aðild Finna fellur hún á því.

UM_Gylfadottir_Haavisto_09-minniÞórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var í Helsinki í vikunni. Hér er hún á blaðamannafundi með Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, þriðjudaginn 29. mars.

Í dag eru 11 þingmenn í framtíðarnefnd alþings ásamt tveimur starfsmönnum alþingis í Helsinki. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er formaður framtíðarnefndarinnar sem „skal m.a. fjalla um áskoranir og tækifæri Íslands í framtíðinni að því er snertir tæknibreytingar, langtímabreytingar á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegar breytingar og sjálfvirknivæðingu,“ segir á vef þingsins.

Nefndarmenn fá vonandi tækifæri til að kynnast hátækni og aðferðum sem Finnar nýta til að verjast fjölþátta árásum. Í Helsinki er einnig evrópskt öndvegissetur þar sem unnið er að rannsóknum á fjölþátta ógnum og lagt á ráðin um aðgerðir til að verjast þeim.

Fjölþátta árásir og netárásir eru tvær hliðar á sama peningnum ef svo má segja. Nauðsynlegt er að efla hér umræður um hættur á þessu sviði og treysta varnirnar. Í því efni geta íslenskir þingmenn lært mikið af Finnum samhliða því sem þeir lofa stuðningi við aðild Finnlands að NATO.