30.10.2017 10:18

Forsetinn kominn í spilið

Viðræðurnar við forseta Íslands eru fyrst og síðast formlegs eðlis. Ekkert knýr á um að hann setji forystumönnum flokkanna nein sérstök tímamörk.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ræðir við formenn stjórnmálaflokkanna á Bessastöðum í dag til að heyra viðhorf þeirra ð loknum kosningunum. Forsetinn fór inn á nýja braut í stjórnarmyndunarviðræðunum í fyrra með því að birta yfirlýsingar um gang þeirra.

Ef til vill er þetta gert af viðleitni til að auka gegnsæi en staðreynd er að viðræður um myndun ríkisstjórnar heppnast ekki nema trúnaður myndist í einkasamtölum milli þeirra sem ábyrgðin á myndun stjórnar hvílir, það er forystumönnum flokkanna. Forseti Íslands er ekki gerandi í því efni og kann frekar að spilla fyrir farsælli niðurstöðu en auka líkur á henni með afskiptum sínum eða inngripi.

Viðræðurnar við forseta Íslands eru fyrst og síðast formlegs eðlis. Ekkert knýr á um að hann setji forystumönnum flokkanna nein sérstök tímamörk. Í fyrra var fjárlagafrumvarp fyrir 2017 ekki komið fram þegar stjórnarmyndunarviðræður hófust öfugt við það sem nú er, frumvarpið fyrir árið 2018 liggur fyrir þinginu.

Í fyrra lagði starfsstjórnin fram frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2017 ekki fram fyrr en í byrjun desember og tókst að afgreiða það í góðri sátt fyrir jól undir öruggri stjórn Haraldar Benediktssonar, formanns fjárlaganefndar, og Bjarna Benediktssonar, þáv. starfandi fjármálaráðherra.

1003835

Þessi klassíska mynd af Bjarna Benediktssyni og Guðna Th. Jóhannessyn í bókhlöðunni á Bessastöðum birtist á mbl.is í morgun.

Tökum dæmi frá Þýskalandi. Þar var kosið til þings 24. september. Vegna lélegrar útkomu ákváðu Jafnaðarmenn að segja skilið við Angelu Merkel og hverfa í stjórnarandstöðu. Merkel sagði þá að hún stefndi að því að hafa myndað stjórn fyrir jól, eftir þrjá mánuði, með Frjálsum demókrötum og Græningjum. Viðræðurnar eru hafnar.

Hér ættu forystumenn flokka að lýsa yfir vilja til að mynda stjórn með meirihluta þingmanna að baki sér og fá þann tíma sem þeir þurfa til að koma sér saman um stefnu hennar og verkaskiptingu.

Ég nefndi hér stjórn DBMF í gær. Það má einnig hugsa sér stjórn DBV, hún yrði líklega traustari í sessi enda meiri festa innan þessara flokka en hinna og reynslumeiri stjórnmálamenn. Þá er þriggja flokka stjórn betri kostur en fjögurra flokka.

Ástæða er til að efast um að Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð geti setið saman í ríkisstjórn úr því að Framsóknarflokkurinn rúmar þá ekki.