5.6.2021 12:20

Forseti Kína boðar nýjan tón

Spennandi verður að fylgjast með því hvort þessi boðskapur Kínaforseta og flokksforingja hafi áhrif á framgöngu kínverska sendiherrans á Ísland, Jin Zhijia.

Breska ríkisútvarpið, BBC, birti um það frétt þriðjudaginn 2. júní að Xi Jinping, forseti Kína, vildi að Kínverjar „stækki vinahóp sinn“ með því að hressa upp á ímynd sína út á við. Forsetinn boðaði þetta á fundi með fyrirmönnum kommúnistaflokksins og sagði mikilvægt að ásýndin bæri með sér að Kína væri „trúverðugt, indælt og virðulegt“.

Fréttaskýrendur segja að hugsanlega leiði þessi forsetaboðskapur til þess að Kínverjar dragi úr fjandsamlegum ummælum sínum í garð annarra þjóða. Fyrir Xi vaki að stöðva málflutning sendiherra og stjórnarerindreka sem grefur undan sambandi Kínverja við aðrar þjóðir.

„Það er nauðsynlegt að afla sér vina, sameina og fá meirihlutann til fylgis við sig og stöðugt stækka vinahópinn á alþjóðavettvangi,“ hefur kínverska ríkisfréttastofan Xinhua eftir forsetanum og flokksforingjanum. Þjóðfélagið eigi að vera „opið og sjálfsöruggt en einnig hógvært og auðmjúkt“ í samskiptum út á við. Áróðursstofnun flokksins verði að taka af skarið um að stjórn landsins vilji „ekkert annað en efla hamingju Kínverja og hagsæld“.

BBC minnir á að sendiherrar og stjórnarerindrekar Kína hafi verið háværari síðari ár en áður og sýnt þeim kaldhæðni og áreiti sem þeir telji vega að Kína. Eru þessir starfshættir sagðir líkjast því sem fram komi í kvikmyndum þar sem kínverskar sérsveitir, Wolf Warriors, ráðast á málaliða í þjónustu Bandaríkjanna – á ensku er talað um Wolf Warrior diplomacy – erindisrekstur í anda úlfa-vígamanna..

Stephen McDonell, fréttaritari BBC, í Kína segir að vilji Xi Jinping að stjórn sín hafi „indælt“ yfirbragð út á við verði sendiherrar hennar að snúa sér um 180 gráður.

Spennandi verður að fylgjast með því hvort þessi boðskapur Kínaforseta og flokksforingja hafi áhrif á framgöngu kínverska sendiherrans á Ísland, Jin Zhijian, sem farið hefur mikinn undanfarna mánuði í anda þeirrar stefnu kínverska stjórnvalda sem ætla má að Xi forseti hafi hafnað í ræðu sinni 31. maí í stjórnmálaráði flokksins.

1034736Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, (mynd: mbls.is/Kristinn Magnússon).

Það verður ef til vill mælikvarði á það hvort forsetinn hafi flutt ræðu sína til birtingar í blekkingarskyni út á við frekar en til heimabrúks. Allar fréttir frá Kína bera merki um að Xi Jinping hefur skipulega hert tökin á kínversku samfélagi frá 2012 þegar hann náði undirtökunum innan kommúnistaflokksins.

Markvisst er unnið að því að þagga niður í gagnrýnendum innan og utan Kína. Hér var Jónas Haraldsson lögmaður settur á svartan kínverskan lista vegna gagnrýnna greinaskrifa um Kína. Sendiherrann flutti ræðu á dögunum þar sem hann ögraði áheyrendum með því að gagnrýndu Íslendingar harðræði kínverskra stjórnvalda í garð Úígúra kynni heimsóknum kínverskra ferðamanna hingað að fækka.

Það er rétt mat hja Xi Jinping að Kínverjar stækka ekki vinahópinn með hótunum.