8.11.2017 10:21

Formaður Viðreisnar afneitar flokksstefnunni

Eftir yfirlýsingu Þorgerðar Katrínar vaknar spurning um hvort Viðreisnarfólk á samleið með Viðreisn.

Mánudaginn 6. nóvember þegar Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, skilaði stjórnarmyndunarumboðinu til forseta Íslands, ræddi Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttamaður ríkisútvarpsins, við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, um stöðu mála. Hann spurði meðal annars:

Verði Viðreisn við þetta stjórnarmyndunarborð, mun flokkurinn setja það sem skilyrði að gengið verði til atkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við ESB á næsta kjörtímabili?

Þorgerður Katrín svaraði:

„Á þessu stigi tel ég rétt að flokkar setji ekki fram nein skilyrði. Ábyrgðin er að koma saman stjórn. Síðan er stóra myndin sú, hvort sem flokkar eru innan eða utan stjórnar, það eru nýju vinnubrögðin. Við þurfum að passa okkur á því að vera málefnaleg bæði í meirihluta sem minnihluta.“

Í ljósi sögunnar markar þetta svar tímamót. Viðreisn setur ekki atkvæðagreiðslu um framhald ESB-aðildarviðræðna sem skilyrði fyrir myndun ríkisstjórnar. Rifjum upp nokkra punkta:

Í nóvember 2008 setur Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, af stað könnun á afstöðu flokksmanna til ESB. Kristján Þór Júlíusson þingmaður leiðir starfið sem lýkur í janúar 2009. Um 70% Sjálfstæðismanna eru andvígir aðild.

Undir lok mars 2009 samþykkti landsfundur Sjálfstæðismanna að hagmunum Íslands væri áfram best borgið utan Evrópusambandsins auk þess var samþykkt tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla, ef tekin yrði ákvörðun á alþingi um að sækja um aðild. Yrðu þá fyrst greidd atkvæði um efni umsóknar, áður en hún yrði send til ráðherraráðs sambandsins og síðan um aðildarkjör, ef svo bæri undir að lokinni meðferð á umsókninni í viðræðum við ESB.

Sambærileg ályktun var samþykkt á landsfundi 2013 að því viðbættu að ESB-aðildarviðræðunum sem hófust 2009 skyldi hætt og þær ekki hafnar að nýju nema með samþykki þjóðarinnar. ESB-aðildarsinnar töldu að frambjóðendur Sjálfstæðismanna hefðu lofað atkvæðagreiðslu um framhald ESB-viðræðnanna hvað sem tautaði og raulaði.

Flokkarnir sem mynduðu ríkisstjórn vorið 2013, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, voru hins vegar báðir andvígir aðild og þess vegna talaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um „pólitískan ómöguleika“, ríkisstjórn andvíg ESB-aðild efndi ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda aðildarviðræðum áfram.

Upphrópanir um svik kosningaloforða bar hátt á árunum 2013 til 2016 en ríkisstjórnin sem þá sat dró ESB-aðildarumsóknina til baka. Varð þetta meðal annars til þess að óánægðir ESB-sjálfstæðismenn stofnuðu Viðreisn, þeir ættu ekki samleið með þeim í flokki sem brytu kosningaloforð og efndu ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB.

Eftir yfirlýsingu Þorgerðar Katrínar sem vitnað er til hér að ofan vaknar spurning um hvort Viðreisnarfólk á samleið með Viðreisn. Hafi flokkurinn verið stofnaður um eitthvert málefni sneri það að þjóðaratkvæðagreiðslunni um framhald ESB-viðræðna. Nú boðar flokksformaðurinn að ekki verði staðið við það loforð bjóðist ráðherrastólar.

Ólíklegt er að þessi yfirlýsing flokksformannsins um hvarf frá meginstefnu flokksins breyti nokkru um aðdráttarafl hans við stjórnarmyndun.