2.8.2023 9:37

Flokksformenn í valdakreppu

Þau áttu engan annan kost en skipta um vettvang, hætta í stjórnmálum eða freista gæfunnar innan nýrra flokka og búa þannig um hnúta að ekki yrði hróflað við stöðu þeirra.

Í Morgunblaðinu í dag (2. ágúst) birtast tvær greinar um Sjálfstæðisflokkinn. Óli Björn Kárason, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, ræðir um stjórnmálaumræður undanfarna daga og bendir réttilega á að Sjálfstæðisflokkurinn sé þungamiðja umræðnanna.

Hin greinin er eftir eldri borgara, Jóhannes L. Helgason. Þar er stefið gamalkunnugt, rógur um Bjarna Benediktsson flokksformann og krafa um breytingu á flokksforystunni. Þegar þeir sem halda dauðahaldi í þennan ömurlega málflutning skrifa eins og þeir séu að leggja Sjálfstæðisflokknum lið boðar það sérkennilegt veruleikaskyn.

1048779Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.Skjáskot

Í grein sinni víkur Óli Björn að samtali Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 30. júlí.

Af útlistun Óla Björns má ráða að ekki hafi verið mikið á samtalinu að græða. Hann segir:

„Klisjurnar runnu út á færibandi. Stefnumál eigin flokka virðast oftast vera aukaatriði í huga forystufólks stjórnarandstöðunnar sem hefur mestan áhuga á störfum og stefnu Sjálfstæðisflokksins.“

Þetta kemur ekki á óvart vegna þess að báðir flokkarnir eiga rætur í óánægju formannanna yfir örlögum sínum annars vegar í Framsóknarflokknum og hins vegar Sjálfstæðisflokknum.

Þau voru hvor með sínum hætti fórnarlömb andrúmslofts sem myndaðist í kjölfar hrunsins. Þau áttu engan annan kost en skipta um vettvang, hætta í stjórnmálum eða freista gæfunnar innan nýrra flokka og búa þannig um hnúta að ekki yrði hróflað við stöðu þeirra án þess að líf flokkanna sjálfra væri í húfi. Þannig er málum háttað núna og hvorugur flokkanna hefur styrk til að tryggja formönnum sínum sæti í ríkisstjórn.

Þegar litið er til stefnumála hafa þessir tveir flokksformenn valið sér ólíkar leiðir. Sigmundur Davíð kýs að halda til hægri og gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn úr þeirri átt með tali um prinsippfestu sem dugar honum til að verða fyrsta frétt á Stöð 2. Þorgerður Katrín heldur á hinn bóginn til vinstri og hallar sér að Samfylkingunni sem reitir af Viðreisn fylgið. Sigmundur Davíð vill harða útlendingastefnu en Þorgerður Katrín milda.

Í ljósi umræðna á alþingi segir Óli Björn að Viðreisn sé leynt og ljóst í samkeppni við aðra vinstriflokka, skipti engu hvort um sé að ræða stefnu í málefnum flóttamanna þar sem keppt sé við Pírata eða í skatta- og útgjaldamálum í kapphlaupi við Samfylkinguna. Þetta kemur heim og saman við mat Þorsteins Víglundssonar, fyrrv. varaformanns Viðreisnar og ráðherra fyrir flokkinn. Hann telur Viðreisn of langt til vinstri núna miðað við það sem að var stefnt við stofnun flokksins árið 2016.

Að samtal flokksmannanna hafi að mestu snúist um Sjálfstæðisflokkinn er ekki skrýtið, stefna þeirra eigin flokka og framtíð ræðst af stefnu og störfum sjálfstæðismanna. Formennirnir komast aldrei til raunverulegra áhrifa nema í samvinnu við sjálfstæðismenn.