28.3.2020 10:42

Finnar einangra Helsinki - Svíar fara eigin leið

Sænsk yfirvöld hafa valið aðra leið í baráttu við kórónaveiruna en Finnar og Danir. Þetta má sjá með því að bera saman opinber fyrirmæli í Danmörku og Svíþjóð.

Finnska þingið samþykkti einum rómi kl. 22.39 að kvöldi föstudags 27. mars að loka frá og með miðnætti öllum samgönguleiðum inn og út úr Uusimaa-héraði Finnlands, það er með öðrum orðum einangra Helsinki og nágrenni frá örðum hlutum landsins. Lögregla og hermenn gæta þess að ferðabannið sé virt.

Sænsk yfirvöld hafa valið aðra leið í baráttu við kórónaveiruna en Finnar og Danir. Þetta má sjá með því að bera saman opinber fyrirmæli í Danmörku og Svíþjóð. Dönum er sagt: „Aflýsið páskahádegisverðinum. Frestið fjölskylduheimsóknum. Farið ekki í skoðunarferðir um landið.“ Svíum er sagt: „Fyrir fríin og páska er mikilvægt að íhuga hvort nauðsynlegt sé að fara í fyrirhugaða ferð innan Svíþjóðar.“

Emma Löfgren sem skrifar fréttir frá Svíþjóð á vefsíðuna local.se segir að túlka megi opinberar ráðleggingar sænskra yfirvalda á ýmsan hátt. Óljóst sé hvort taka eigi þeim með fyrirvara um að sænsk yfirvöld segi almennt ekki meira en þau telji nauðsynlegt til að allir átti sig á að þeim beri að taka skynsamlegar ákvarðanir eða hvort þetta þýði í raun að menn geti gert það sem þeir vilja á meðan engar reglur gildi.

A79ad84d309185cafd2435adb53d0dfba9b6e755f789abb588b689966d0f76a7Sænskir hermenn setja upp sjúkrahús í ráðstefnuhöll Stokkhólms.

„Við getum ekki lögfest og bannað allt. Þetta er einnig spurning um að heilbrigð skynsemi ráði,“ sagði Stefan Löfven forsætisráðherra þegar hann fann að því að fólk færi ekki að opinberum ráðleggingum. Það sem hér er þýtt með orðunum „heilbrigð skynsemi“ er sænska orðið folkvett sem Emma Löfgren segir að feli í sér að hver og einn eigi að búa yfir meðfæddri siðferðisvitund, þeir Svíar séu mjög illa á vegi staddir sem geri það ekki.

Frá og með sunnudegi 29. mars mega ekki fleiri en 50 koma saman í Svíþjóð. Fólk er hvatt til að halda sig heima finni það fyrir einhverjum veikindum (jafnvel smáhósta eða hálsbólgu), láta af ónauðsynlegum ferðum innan lands, stunda vinnu að heiman sé það unnt, forðast ónauðsynlegar heimsóknir til eldri borgara eða sjúkrahúsa.

Þá er mælt með að menn þvoi sér hendur í a.m.k. 20 sekúndur með sápu og heitu vatni, noti handspritt sé ekki vatn við höndina, og hnerri eða hósti í olnbogann.

Veitingastöðum og börum er bannað að veita öðrum þjónustu en þeim sem sitja við borð.

Allir 70 ára og eldri og þeir sem eru í áhættuhópum eru hvattir til halda sig sem mest frá samskiptum við aðra, þar á meðal að fara í verslanir. Leyft er að fara út í gönguferðir en þó með því að gæta hæfilegrar fjarlægðar (2 metra að ráði WHO).

Þetta eru sænsku meginreglurnar sem að sögn Emmu Löfgren vekja í huga margra fleiri spurningar en þær svara og skapa ótta meðal útlendinga í Svíþjóð sem þykir þeir auk þess næsta afskiptir.