13.2.2023 9:25

Ferðir í félagslega kerfið

Annars vegar er sagt logið að fólki í Venesúela um aðstæður á Íslandi, hins vegar eru þeir sagðir verri hér sem vekja athygli á þessu skipulagða áhlaupi á félagslega kerfi landsins. 

Um þessar mundir bíða hér 1.400 hælisumsóknr afgreiðslu hjá útlendingastofnun, þar af eru 900 frá ríkisborgurum í Venesúela. Frá því var skýrt á visir.is sunnudaginn 12. febrúar að Air Viajes, ferðaskrifstofa í Venesúela, auglýsti á samfélagssíðunni Instragram gott velferðarkerfi og há meðallaun á Íslandi; lágmarkslaun frá 500 þúsund allt upp í 850 þúsund krónur.

Kærunefnd útlendingamála kvað upp úrskurð í júlí 2022 um að hælisleitanda frá Venesúela skyldi veitt vernd. Síðan hafa hælisleitendur frá Venesúela talið sig eiga greiðan aðgang að félagslega kerfinu. Streyma þeir til landsins um flugvöllinn í Madrid. Íslenskum stjórnvöldum hefur mistekist að sannfæra spænsk yfirvöld um að þetta sé óeðlilegt.

85b87fc9-c19c-4392-acd7-7756943ab40e

Þingmaður Pírata segir þá breiða út flökkusögu til að ýta undir útlendingahatur sem vekja athygli á þessari auglýsingu í Venesúela um að fólk fari í ferð og gerist hælisleitendur á Íslandi og njóti góðrar félagslegrar aðstoðar.

Ísland sker sig úr sem aðdráttarafl fyrir Venesúelabúa sé miðað við önnur aðildarríki Schengen-samstarfsins. Lokaorðið í þessu efni eiga stjórnvöld hér á landi. Má ráða af orðum Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra að hendur hans og stofnana á vegum ráðuneytisins séu bundnar vegna úrskurðar kærunefndarinnar.

Ráðherrann segir við Morgunblaðið í dag (13. febrúar) að við þessu verði „að bregðast vegna þess að þróunin í þessum málum getur ekki haldið áfram með þeim hætti sem verið hefur“. Útlendingastofnun sé að afla gagna „um aðstæður“ í Venesúela.

Enginn sem þekkir til hörmunganna sem sósíalistar hafa leitt yfir Venesúela undanfarin ár þegar þeir hafa leitt þetta mesta olíulindaríki heims til örbirgðar efast um að lífskjör þar eru bág en það jafngildir því ekki að íbúar þar séu settir á sama bekk og Úkraínumenn í keppni um skjól hér á landi. Það sjá allir í hendi sér og þarf enga opinbera nefnd til að úrskurða um það.

Um árabil hafa Grikkir verið útmálaðir hér af opinberum aðilum sem óhæfir til að veita hælisleitendum vernd og þess vegna megi ekki senda fólk þangað í samræmi við Dublinreglugerðina. Þessar ófögru lýsingar eru til heimabrúks af þeim sem vilja ekki viðurkenna staðreyndir í umræðum um útlendingamál.

Nú þegar fyrir liggur að ferðaskrifstofa markaðssetur Ísland í Venesúela sem gósenland fyrir þá sem vilja lifa á góðum félagslegum bótum á kostnað íslenskra skattgreiðenda birtist Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, á visir.is og segir ekkert nýtt koma fram í myndbandinu frá Venesúela, þetta sé eins og hver önnur „flökkusaga“, rangt sé farið um lágmarkslaun því sé ekkert að marka auglýsinguna, dagpeningar hér séu ekki hærri en annars staðar. Þeir sem nýti sér svona „flökkusögur“ ýti undir andúð gegn hælisleitendum sem vilji „öðlast almennilegt líf, öruggt líf“.

Þetta eru dæmigerð viðbrögð. Annars vegar er sagt logið að fólki í Venesúela um aðstæður á Íslandi, hins vegar eru þeir sagðir verri hér sem vekja athygli á þessu skipulagða áhlaupi á félagslega kerfi landsins. Undarlegast er að enn skuli einhverjir ekki sjá í gegnum þessa svikamyllu – sérstaklega er skrýtið að opinber nefnd hér bindi stjórnvöld og skyldi skattgreiðendur til að borga brúsann.