10.8.2023 9:37

„Félagslegur fjölbreytileiki“ Hjálmars

Það er einkennilegt að Hjálmar skuli ekki spurður nánar út í hvað honum þyki ábótavant í „félagslegum fjölbreytileika“ í Fellahverfi. 

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur, sagði í samtali við mbl.is 3. ágúst að hann myndi eftir því þegar hann vann að gerð aðalskipulags Reykjavíkur 2010 til 2030 hefði sú hugmynd komið inn að byggja mætti hverfi íbúðarhúsa við Suðurfell í Efra-Breiðholti. Síðan sagði Hjálmar orðrétt:

„Hugmyndin á bak við það var að þetta myndi auka félagslegan fjölbreytileika í Fellahverfi.“

Í umræðum um framkvæmd þessarar hugmyndar sem nú hefur verið kynnt í deiluskipulagi er gert ráð fyrir lágreistri íbúðarbyggð. 1-2 hæðir, með 50 til 75 íbúðum.

1430476-1-Hjálmar Sveinsson og reiturinn við Suðurfell (samsett mynd, mbl.is).

Áformin sæta gagnrýni og 9. ágúst sagði Halldór Páll Gíslason, formaður Hollvinasamtaka Elliðaárdals, í samtali við mbl.is að samtökunum litist illa á þessi áform um nýtt íbúðarhverfi þarna. Halldór Páll hefur áhyggjur af framtíð útivistarsvæðisins við Elliðaárdal og segir dalinn mikilvægan fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Hann segir:

„Ef þú horfir á það skipulag sem núna er með Efra-Breiðholt og alla þessa þéttingu í Breiðholti þá er verið að taka út öll græn svæði. Fólk verður að hafa eitthvað smá afdrep.Við megum ekki eyðileggja þá fáu reiti sem eftir eru í borginni þar sem þú finnur ekki jafnmikið fyrir þessum umferðarhávaða.“

Þegar lesið er í það sem Hjálmar Sveinsson sagði við mbl.is er augljóst að við gerð aðalskipulagsins réð ekki umhyggja fyrir grænum svæðum eða Elliðaárdalnum hugmyndinni um að byggja mætti á þessum reit heldur sú viðleitni forsjárafla vinstrisinna að stuðla ætti að „félagslegum fjölbreytileika“.

Það er einkennilegt að Hjálmar skuli ekki spurður nánar út í hvað honum þyki ábótavant í slíkum fjölbreytileika í Fellahverfi og hvernig fólk hann telji æskilegt að flytji inn í íbúðirnar sem hann vill að rísi þarna. Ætlar hann að taka að sér að velja það?

Þegar Hjálmar var spurður að því um árið hvort ekki væri ráðlegt að gera ráðstafanir til að greiða fyrir umferð bifreiða í borginni svaraði hann á þann veg að það þjónaði engum tilgangi, bílunum myndi bara fjölga við það.

Sem hugmyndafræðingur Samfylkingarinnar í skipulagsmálum borgarinnar hefur Hjálmar tekið höndum saman við Pírata í stríði borgarmeirihlutans við fjölskyldubílinn. Viðreisn hefur barist með Hjálmari í fimm ár í þessu stríði og nú gerir Framsókn það líka.

Fróðlegt væri að vita hvort einhugur sé innan meirihlutans í borgarstjórn um hverjir eigi að flytja inn í nýja hverfið við Suðurfell til að markmiðið um „félagslegan fjölbreytileika“ náist.

Halldór Páll Gíslason, formaður Hollvinasamtaka Elliðaárdals, telur það líklega ekki falla undir samtök sín að skilgreina hvaða fólk sé best að fá í nýja hverfið. Einhverjir í nábýli við það ættu þó að hafa áhuga á að vita hverjum Hjálmar Sveinsson ætlar að beina þangað eftir að hann fær deiluskipulagið samþykkt með samstarfsfólki sínu.