29.1.2022 10:38

Fáfræði í flissviðtali

Þetta er ekki flókið og ætti að vera auðskilið fjölmiðlamönnum hér. Annað sýndi sig þó í dæmigerðu flissviðtali 27. janúar á morgunvakt Rásar 2.

Hvarvetna beinist athygli áhugamanna um utanríkis- og varnarmál að því sem gerist vegna umsáturs á annað hundruð þúsund rússneskra hermanna um Úkraínu, heræfinga Rússa og Hvítrússa í Hvíta-Rússlandi og siglinga rússneskra landgönguskipa og herskipa inn á Miðjarðarhaf og Svartahaf. Fimm skipa rússnesk flotadeild hefur til dæmis siglt suður með strönd Noregs í vikunni og stefnir til æfinga fyrir suðvestan Írland í næstu viku.

Af öllu þessu er auðvelt að álykta að Rússar séu að sýna vígtennurnar án minnsta tilefnis eða ögrunar af hálfu annarra þjóða. Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svía, er ómyrkur í máli um þetta rússneska hernaðarbrölt. Hann segir það heimatilbúið að tilefnislausu og aðeins til marks um ólíðandi yfirgangsstefnu. Simon Coveney, utanríkisráðherra Íra, segir rússnesku herskipin „óvelkomin“ í írska lögsögu. Bæði Svíar og Írar eru utan NATO.

Í Noregi birta fjölmiðlar fréttir um ferðir rússnesku herskipanna og sérfræðingar í varnarmálum setja þær í samhengi við umsátrið um Úkraínu, velta fyrir sér hvaða áhrif það hafi á beitingu rússneska Norðurflotans hér í okkar heimshluta sjóði upp úr í Úkraínu.

0F591182Mike Pompeo, þáv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum í febrúar 2019 (af vef stjórnarráðsins).

Miðvikudaginn 26. janúar birtist forsíðufrétt í Fréttablaðinu um að umsvif herflugvéla hefðu aukist á Keflavíkurflugvelli. Þá var einnig enn einu sinni sagt frá endurnýjun á öryggissvæði vallarins fyrir nýja gerð eftirlits- og kafbátaleitarvéla, P-8 Poseidon, sem Bandaríkjamenn halda úti og Bretar og Norðmenn hafa keypt.

Undanfarin misseri hefur bandaríski flugherinn aukið samvinnu sína við flugheri Norðmanna, Svía og Finna í norðri. Hann hélt hér einnig úti torséðum B2 Spirit sprengjuvélum í tvær til þrjár vikur um mánaðamótin ágúst/september 2021. Þá var því ranglega haldið fram að Keflavíkurflugvöllur væri orðin að því sem kallað var „útstöð“ þessara véla, hvað sem það þýðir í raun.

Allt sem framkvæmt er á öryggissvæðinu ber þess merki að treysta flugvöllinn í sessi sem skiptivöll fyrir flugvélar frá ólíkum þjóðum innan NATO auk Svía og Finna. Þetta eflir öryggi okkar og er framlag okkar til að tryggja öryggi á N-Atlantshafi með tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin, aðildinni að NATO og NORDEFCO, norræna varnarsamstarfinu.

Þetta er ekki flókið og ætti að vera auðskilið fjölmiðlamönnum hér. Annað sýndi sig þó í dæmigerðu flissviðtali 27. janúar á morgunvakt Rásar 2 þar sem kallað var á gamla herstöðvaandstæðinginn Stefán Pálsson til að ræða frétt Fréttablaðsins.

Stefán var kynntur til sögunnar sem sagnfræðingur en vissi þó ekki meira en hann hélt því fram að áður en Mike Pompeo, þáv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom hingað til lands í febrúar 2019 hefði verið tilkynnt að Ísland yrði „útstöð“ fyrir B2 Spirit þoturnar! Það er til marks um fáfræði RÚV-þáttarstjórnandans að það vakti undrun þegar fram kom að kjarnorkuknúnir kafbátar með kjarnorkuvopn sveimuðu í hafdjúpinu í nágrenni Íslands.

Fáfræði fjölmiðlamanna og rangtúlkanir sagnfræðinga til að sverta varnir landsins breyta hvorki gangi heimsmála né landfræðilegu Íslands. Hvort tveggja ræður þjóðaröryggisstefnu Íslands og framkvæmd hennar.