29.3.2022 9:55

Fæðuöryggi í brennidepli

Fjölmiðlamenn ættu að læra muninn á matvælaöryggi annars vegar, sem snýr að heilbrigði matvæla, og fæðuöryggi hins vegar.

Á alþingi voru í gær (28. mars) umræður um fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu. Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði fimm frekar ómarkvissar spurningar fyrir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þær sneru mest að hvernig ætti að aðstoða bændur fyrir utan athuganir innan stjórnsýslunnar og þjóðaröryggisráðs..

Fyrir liggja haldgóðar greinargerðir og tillögur um hvernig auka skuli fæðuöryggi. Sérstök skýrsla frá landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og rökstuddar tillögur í landbúnaðarstefnunni Ræktum Ísland! Það er algjör óþarfi að finna upp hjólið í þessu efni þrátt fyrir stríðið í Úkraínu.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, átti orðastað um þetta sama mál við forsætisráðherra í þingsalnum 21. mars og sagði þá meðal annars að á þessari stundu skipti fyrst og fremst máli að hvetja íslenska bændur til dáða. Hvarvetna stæðu þjóðarleiðtogar með bændum og innlendri framleiðslu á hverjum stað fyrir sig og hvettu þá til láta ekki undan síga. „Við erum jú grasræktarland og fóðuröflun okkar er fyrst og fremst heyskapur. Þess vegna held ég að það skipti máli að við hugum að því í tíma því að nú fara vorverk að hefjast og við leggjum grunninn að matvælaframleiðslu næsta árs og næstu ára á næstu vikum og mánuðum,“ sagði Haraldur réttilega.

Katrín Jakobsdóttir sagðist „hjartanlega sammála“ Haraldi um að hvetja ætti bændur til dáða, fyrir utan búfjárrækt, mjólkurframleiðslu og eggjaframleiðslu ætti að efla grænmetisframleiðsluna og kornrækt þar sem væru „mikil tækifæri“.

„Ég held að þarna séu vannýtt tækifæri fyrir Ísland til lengri tíma,“ sagði forsætisráðherra og einnig „En þetta ástand í heiminum minnir okkur líka á mikilvægi þessara greina fyrir öryggi þjóðarinnar. Ég held að þarna séu tækifæri og að það sé líka mikilvægt að bregðast við.“

Jardraekt2Jarðrækt – mynd af vefsíðu Búnaðarsambands Suðurlands,

Birgðastaða í landinu ætti að vera betri eins og bent hefur verið á, meðal annars hér. Hitt er almennt og brýnt viðfangsefni að nýta landið betur til framleiðslu búfjárafurða með grasbítum og innlenda orkugjafa til grænmetisræktunar. Þingmenn eru sammála um að auka beri kornrækt fyrir búfé og til manneldis. Það ber að auka jarðræktarstyrki til að stuðla að útiræktun á fleiri tegundum grænmetis og garðávaxta til manneldis. Þá er grasprótein vannýtt sem fóðurhráefni. Ýta verður undir notkun búfjáráburðar á tún og akra. Tryggja ber aðföng og nýta land eins og kostur er til að framleiða repjuolíu og aðra orkugjafa.

Tillögur liggja fyrir um þetta allt. Með styrkjum og annarri hvatningu er unnt að beina landbúnaðarstarfsemi í meira mæli inn á þessar brautir og auka fæðuöryggið. Stjórnvöld eiga að láta verkin tala.

Fjölmiðlamenn ættu að læra muninn á matvælaöryggi annars vegar, sem snýr að heilbrigði matvæla, og fæðuöryggi hins vegar. Það yrði auka-ávinningur í þessum umræðum að hætt yrði að rugla þær með rangri hugtakanotkun.