21.7.2020 9:50

ESB-fjárlagasamningur í Brussel

Fyrir utan samkomulagið um fjárlögin og bjargráðasjóðinn var einnig í fyrsta sinn veitt heimild til sameiginlegrar lántöku á frjálsum markaði í nafni allra 27 ESB-ríkjanna.

Fimm daga löngum fundi leiðtogaráðs ESB lauk aðfaranótt þriðjudags 21. júlí í Brussel. Leiðtogarnir tókust á um fjármál: bjargráðasjóð ESB vegna COVID-19 og fjárlög ESB til næstu sjö ára. Þeir sömdu um að 390 milljarðar úr bjargráðasjóðnum yrðu styrkir og 360 milljarðar evra lán með lágum vöxtum, samtals 750 milljarðar evra til suðlægu ríkjanna sem hafa orðið verst úti vegna veirunnar.

Fyrir utan samkomulagið um fjárlögin og bjargráðasjóðinn var einnig í fyrsta sinn veitt heimild til sameiginlegrar lántöku á frjálsum markaði í nafni allra 27 ESB-ríkjanna.

Í umræðum um bjargráðasjóðinn varð til ríkjahópur innan ESB sem á ensku er kenndur við orðið frugal, sparsamur. Í hópnum eru fimm ríki: Austurríki, Holland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Í fjölmiðlum er jafnan látið eins og ríkin séu fjögur, án Finnlands.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, er í forystu hópsins og segja fréttaskýrendur að hann taki sér sæti andmælandans sem Bretar skipuðu áður en þeir sögðu skilið við leiðtogaráðið.

3e09ee2fc85db5f4ad72dbb9bcc1a9042387032d684d8d2b87af255859fa2319Leiðtogar sparsömu ESB-ríkjanna: Mark Rutte Hollandi, Sebastian Kurz Austurríki, Sanna Marin Finnlandi, Mette Frederiksen Danmörku, Stefan Löfven Svíþjóð á einkafundi í Brussel,

Rutte fær kaldar kveðjur í franska blaðinu Le Figaro að morgni þriðjudagsins 21. júlí. Þar segir að eftir fjögurra daga viðræður hafí Rutte tekist tvennt: knúið fram afslátt hjá þeim sem vörðu bjargráðin sumir af veikum mætti og áunnið sér fyrirlitningu Frakka, Þjóðverja og allra þjóða í suðurhluta ESB. „Við skulum vona að hann bjóði þeim kaffi og krósant í morgunsárið,“ segir franski blaðamaðurinn og að Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafi hótað að kvöldi sunnudags 19. júlí:

„Ef þið viljið slíta, er það vandræðalaust. Ég undirbý blaðamannafund minn með Angelu Merkel og við gerum grein fyrir því að þeir „sparsömu“ hafi komið í veg fyrir samkomulag.“

Sú mynd var dregin upp að það yrði gífurlegt áfalla fyrir ESB ef ekki tækist að ná samkomulagi innan þess um viðbrögð við COVID-19. Eftir að samkomulag er í höfn er lögð höfuðáhersla á að samstarfið innan þess sé reist á gagnkvæmum vilja til samkomulags og lausnar á alvarlegum vanda.

Le Figaro segir að í málamiðlun leiðtogaráðsins felist að sparsömu ríkjunum fimm hafi tekist að lækka beina styrki til suðlægu ríkjanna úr 500 milljörðum evra í 390 milljarða og auk þess tryggt eigin ríkjum nokkur hundruð milljóna evra afslátt á greiðslum til fjárlaga ESB.

Blaðið segir að Mark Rutte hafi endurtekið í sífellu: „Æ, ég hef þegar gefið mikið eftir ... nú er komið að ykkur að láta mig hafa eitthvað í staðinn.“ Þetta hafi skilað árangri og hann sé hataður í Suður-Evrópu og ætti ekki að fara þangað í sumarfrí í ár.

Tónninn í Le Figaro endurspeglar pólitísku undirstraumana. Fyrir utan að lækka beina styrki til suðlægu ríkjanna var þeim gert að fullnægja ákveðnum skilyrðum til að verða styrkhæf. Þá voru einnig sett skilyrði fyrir greiðslum úr sjóðum ESB sem lúta að virðingu fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum og snúa þau að Ungverjum og Pólverjum.