29.4.2024 12:20

Ellefu í forsetaframboði

Hér á síðunni verður ekki tekin afstaða til frambjóðenda á þessu stigi og kannski aldrei.

Frambjóðendur í forsetakosningunum 1. júní 2024 verða 11: Arnar Þór Jónsson, Ásdís Rán Gunnarsdóttir, Ástþór Magnússon Wium, Baldur Þórhallsson, Eiríkur Ingi Jóhannsson, Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir, Helga Þórisdóttir, Jón Gnarr, Katrín Jakobsdóttir og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir

Landskjörstjórn tilkynnti þetta klukkan 11.00 í dag, 29. apríl. Hún úrskurðaði tvo úr leik vegna skorts á meðmælendum: Kára Vilmundarsonar Hansen og Viktor Traustason. Voru framboð þeirra ekki talin gild.

Landskjörstjórn hefur úrskurðað um gildi framboðanna.

Landskjörstjórn (mynd mbl.is/Kristinn Magnússon).

Umræður um framboðin og kosningarnar taka nú á sig nýjan svip. Í könnun sem Prósent vann fyrir Morgunblaðið og birt var í morgun mælist Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri með tæplega 29% fylgis og tekur nokkra forystu meðal frambjóðenda. Ekki er þó talinn tölfræðilega marktækur munur á henni og Baldri Þórhallssyni prófessor, sem mælist með 25% fylgi.

Morgunblaðið segir að stóru fréttirnar séu hins vegar þær að fylgi Katrínar Jakobsdóttur fv. forsætisráðherra minnkar skarpt milli vikna samkvæmt niðurstöðum Prósents. Hún mælist nú með 18% fylgi, en var með 24% í liðinni viku. Jón Gnarr leikari rekur fjögurra efstu með 16%. Könnunin var gerð þriðjudaginn 23. apríl til sunnudagsins 27. apríl.

Þá lét Morgunblaðið kanna hvaða frambjóðanda fólk teldi líklegastan til þess að fá flest atkvæði í forsetakjörinu 1. júní. Þau svör eru verulega frábrugðin hinum um hvern fólk kvaðst styðja í augnablikinu.

Katrín Jakobsdóttir hafði þar afgerandi forystu, en 35,3% töldu hana sigurstranglegasta. Næstur kom Baldur Þórhallsson með 29,5%. Halla Hrund er þarna með 22,1% en aðeins 7,4% töldu Jón Gnarr hljóta flest atkvæði á kjördegi.

Niðurstöður kannanna hafa veruleg áhrif á afstöðu kjósenda.

Á vefsíðu sinni í dag fagnar til dæmis Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður því að könnunin í Morgunblaðinu sýni að vegur frambjóðandans Höllu Hrundar Logadóttur hafi vaxið verulega. Sér sýnist hún verðugur frambjóðandi. Hún muni auk annars ekki hyggja á andstöðu við orkuöflun úr náttúruvænum auðlindum þjóðarinnar, taki alþingi ákvarðanir um slíkt. Segist Jón Steinar hafa stutt framboð Arnars Þórs Jónssonar til þessa „en hann virðist ekki njóta nægilegs fylgis til að ná kjöri,“ segir hann og að lokum: „Ég segi því bara: Kjósum Höllu Hrund.“

Í könnuninni sem Morgunblaðið birtir fær Arnar Þór 2,7% stuðning.

Sérfræðingar segja að nú stefni í mjög spennandi kosningabaráttu. Hér á síðunni verður ekki tekin afstaða til frambjóðenda á þessu stigi og kannski aldrei því að sagan sýnir að atkvæði þess sem þetta skrifar hefur aldrei fallið á neinn sem náð hefur forsetakjöri. 

Uppfært klukkan 18.43:

Síðdegis setti Jón Steinar Gunnlaugsson á vefsíðu sína:

„Mér varð á í messunni þegar ég setti inn færslu um stuðning við Höllu Hrund Logadóttur, að vísu að því tilskildu að hún myndi ekki beita sér gegn virkjunum ef hún kæmist í stólinn. Nú hefur mér verið sýnt efni sem sýnir að konan er einmitt á móti orkuvinnslu þó að hún sé náttúruvæn. Það þýðir að stuðningur minn við hana var byggður á misskilningi og er því dreginn til baka. Sá eini sem unnt er að styðja er því eftir sem áður Arnar Þór Jónsson.“