7.2.2020 11:14

Ekkert stríð milli Breta og ESB

Ekki er allt svart og hvítt milli Breta og ESB og rangt að draga upp einskonar stríðsmynd af því sem verður við samningaborðið, þar eru gagnkvæmir hagsmunir í húfi.

Myndin sem dregin er upp af stöðu Breta gagnvart ESB eftir brexit er jafnvel svartari í augum ESB-andstæðinga hér á landi en Breta sjálfra. Á þessu stigi draga viðræðuaðilarnir fram það sem skilur á milli þeirra.

Þar ræður úrslitum að Bretar vilja ekki eiga áfram aðild að sameiginlega markaðnum (EES-markaðnum) heldur gera fríverslunarsamning. Vísa þeir þar helst til samnings sem Kanadamenn gerðu við ESB og var tæp átta ár í smíðum. Vilji ESB ekki semja á þeim nótum megi nota samning ESB og Ástralíu sem fyrirmynd. Allt er þetta þó heldur laust í reipunum og ómótað.

Skilin milli afstöðu Breta og ESB eru þó skýr að einu leyti: ESB vill sporna gegn því að Bretar geti náð forskoti gagnvart ESB-þjóðum með reglum um ríkisstuðning, kröfum í umhverfismálum, öryggiskröfum eða öðru af sambærilegum toga. Breska ríkisstjórnin hafnar slíkum kröfum.

Í fréttum segir frá því að sá sem stýrir viðræðunum sem Bretar hefja nú við ESB og aðra um fríverslunarsamninga hafi um 700 lögfræðinga í þjónustu sinni. Eftir 47 ára aðild að ESB sem samdi um fríverslun fyrir hönd Breta er augljóst að það eitt að gefa þessum skara lögfræðinga færi á að afla sér þekkingar á gerð og inntaki slíkra samninga er stórverkefni. ESB hefur forskot að þessu leyti eins og svo oft áður gagnvart Bretum eftir að brexit-ferlið hófst árið 2016. Bretar voru einfaldlega oft teknir í bólinu og eiga á hættu að það gerist enn og aftur.

20190320PHT32035_originalÞegar rætt er um fiskveiðimál er sagt að Bretar líti til samninganna sem Norðmenn gerðu á sínum tíma við Breta, aðstæður þeirra sem nágranna ESB-ríkja séu um margt líkar og Breta. Breskum sjávarútvegi og fiskiskipaflota hefur þó hnignað svo mjög að Bretar hafa enga burði til að nýta sér allan leyfilegan afla innan eigin lögsögu. Takist Boris Johnson að fá aftur fulla stjórn á fiskveiðum innan breskrar lögsögu er „líklegt að Bretar ráði yfir of miklu af fiski en of fáum sjómönnum sem geta veitt hann. Og við þær aðstæður kynnum við áfram að sjá nokkuð marga ESB-togara á sveimi um breska lögsögu undir stjórn Breta,“ segir sérfræðingur The Daily Telegraph í brexit-málum.

Hér er ekki allt svart og hvítt og rangt að draga upp einskonar stríðsmynd af því sem verður við samningaborðið, þar eru gagnkvæmir hagsmunir í húfi og Boris Johnson leggur áherslu á að þeirra verði gætt í vinsamlegu andrúmslofti.

Á árinu 2019 kynntumst við Íslendingar því hve mikil harka getur allt í einu hlaupið í mál sem snerta samskipti okkar við ESB. Alltof mikil heift hljóp í deiluna um þriðja orkupakkann miðað við efni málsins. Rök skorti fyrir því að íslensk stjórnvöld létu reyna á neitunarvald gagnvart ESB vegna þriðja orkupakkans. Að það var ekki gert segir ekkert um inntak þessa neitunarvalds en um það er deilt af lögfræðingum eins og svo margt annað tengt EES-aðildinni. Oft virðast þær deilur snúast um keisarans skegg þegar hugað er að réttindunum sem EES-aðildin hefur skapað einstaklingum og fyrirtækjum. Fullveldisskylda ríkisstjórna felst meðal annars í að standa vörð um þessi réttindi.