8.1.2024 10:14

Einar og tjaldbúðirnar

Nú hafa tjaldbúðir verið á Austurvelli yfir jólahelgina og formaður borgarráðs kemur af fjöllum. Tjaldsvæði er afmarkað í borginni, lögreglusamþykkt Reykjavíkur bannar að tjaldað sé á Austurvelli.

Um jólin voru reistar tjaldbúðir á Austurvelli. Að baki aðgerðunum standa félagið Íslands – Palestína, Solaris – hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi og No borders, samtök gegn landamærum.

Fulltrúar tveggja samtakanna, Hjálmtýr Heiðdal og Sema Erla Serdaroglu, segja í opnu bréfi til félagsmálaráðherra 5. janúar að hluti af Palestínufólki hér á landi sem bíði ástvina sinna frá Gaza hafi „tekið upp á því örþrifaráði að setja upp tjaldbúðir fyrir framan“ Alþingishúsið í þeim tilgangi að ná eyrum stjórnvalda. Þar hafi þau þá „dvalið í 10 sólarhringa í nístingskulda“.

Fólkið vilji að hingað komist rúmlega 100 einstaklingar sem hafi fengið dvalarleyfi og ættu, „eðli málsins samkvæmt, að vera löngu komnir til Íslands“ en þau séu hins vegar öll enn í lífshættu á Gaza. Þar er stríðsástand eins og kunnugt er og landamærin til Egyptalands lokuð.

Margrét Kristín Blöndal (Magga Stína) segir að fyrst utanríkisráðuneytið gat sent vél til að sækja Íslendinga í Tel Aviv [uppfærsla: rétt ábending kom um að vélin var send til Amman í Jórdaníu] eftir hryðjuverk Hamas í Ísrael 7. október geti stjórnvöld eins sent vél til að sækja 100 frændur Palestínumannanna á Gaza. Hún sakaði ráðherra í grein á Vísi 1. janúar um „að ljúga hver í kapp við annan um þetta mál og verða sjálfum sér ítrekað til ævarandi hneisu og niðurlægingar með því að fara með síendurtekinn þvætting og rangfærslur um staðreyndir“.

Það sem þarna er kölluð lygi og rangfærslur eru ummæli íslenskra ráðherra í þá veru að það sé meira en segja það að fólk komist frá Gaza. Þá ber þess að geta að lögbundnar skyldur íslenskra stjórnvalda gagnvart frændfólki Palestínumannanna eru auk þess aðrar en gagnvart íslenskum ríkisborgurum. Rök af því tagi eru líklega höfð að engu og kennd við rasisma. Þannig er þó samt í pottinn búið.

Screenshot-2024-01-08-at-08.36.55Frétt Morgunblaðsins 8., janúar 2024.

Allt hefur verið gert af hálfu stuðningsmanna tjaldbúðafólksins á Austurvelli til að vekja athygli á málstað þess. Í Morgunblaðinu í dag (8. jan.) kemur hins vegar í ljós að Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs og verðandi borgarstjóri, veit varla um þær. Í samtali við blaðamann segir hann um tjöldin og allt sem þeim fylgir: „Þetta er sannarlega nokkuð óvenjulegt en ég veit ekki til þess að það hafi verið rætt innan borgarkerfisins.“

Frá 11. til 18. mars 2019 höfðu No Borders samtökin leyfi borgaryfirvalda til að tjalda á Austurvelli. Leyfið var afturkallað og lögregla lét að sér kveða. Var tjaldbúum bent á svæði í Laugardal.

Nú hafa tjaldbúðir verið á Austurvelli yfir jólahelgina og formaður borgarráðs kemur af fjöllum. Tjaldsvæði er afmarkað í borginni, lögreglusamþykkt Reykjavíkur bannar að tjaldað sé á Austurvelli.

Í frétt Morgunblaðsins segir að óvarinn rafkapall liggi í tjöldin úr tengikassa orkuveitunnar. Þarna hefur verið sofið, eldaður matur og stórir gashitarar tendraðir með tilheyrandi sprengi- og eldhættu við Alþingishúsið.

Verðandi borgarstjóri ætlar að kanna hvort þetta hafi verið rætt innan borgarkerfisins. Ömurlegri tilraun til að skjóta sér undan ábyrgð er vandfundin, meira að segja í tíð Dags B. Eggertssonar.