11.3.2021 11:45

Efling veikti réttarstöðuna

Það má álykta af þessu að málarekstur Eflingar hafi orðið til að skaða réttarstöðu Rúmenanna. Héraðsdómarinn sýknaði Menn í vinnu af kröfum sem Efling gerði fyrir hönd Rúmenanna.

Stéttarfélagið Efling tók sér fyrir hendur að stefna fyrirtækinu Eldum rétt og gjaldþrota starfsmannaleigunni Menn í vinnu fyrir hönd fjögurra Rúmena sem Efling taldi að hefðu verið hlunnfarnir. Efling tapaði málinu í héraðsdómi Reykjavíkur 24. febrúar 2021. Nú virðist sem málavafstur Eflingar hafi skaðað réttarstöðu Rúmenanna gagnvart Ábyrgðarsjóði launa. Málaferlin kostuðu félagsmenn Eflingar að minnsta kosti fjórir milljónir króna sem félaginu var gert að greiða í málsvarnarlaun.

Eftir að dómur féll gengu forystumenn Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson, fram fyrir skjöldu með ásökunum í garð dómarans um of þungar kröfur um sönnunarbyrði og ræddu um „lagatæknilega fimleika“. Þau sögðu dómarann fara „rangt með veigamikið efnisatriði“. Dómurinn væri óviðunandi „í ljósi mikilla vankanta á umfjöllun Héraðsdóms um málið“. Var boðað að frávísunin yrði kærð til landsréttar og sýknudóminum áfrýjað. „Við ætlum að skoða þessa stöðu mjög vel og þessi barátta er bara rétt að byrja,“ sagði Viðar Þorsteinsson í Fréttablaðinu 25. febrúar 2021.

31408427_1543167259114758_9166046322376048640_.width-900Forystumenn Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson (mynd: Kjarninn).

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði á vefsíðu Eflingar miðvikudaginn 10. mars það óvænta vendingu í þessu máli að Ábyrgðarsjóður launa hefði viðurkennt og gengist í ábyrgð fyrir kröfum vegna vangreiddra launagreiðslna til fjögurra rúmenskra félagsmanna Eflingar. „Þannig er félagsmönnum okkar bættur skaði og því eru að okkar mati ekki sömu forsendur fyrir dómsmáli [þ. e. áfrýjun til landsréttar]. Hins vegar er það miður að þessi kostnaður lendi á skattgreiðendum og vil ég skora á Eldum rétt að axla ábyrgð og endurgreiða Ábyrgðarsjóði þessar fjárhæðir,“ sagði Sólveig Anna.

Fjárhæðirnar úr ábyrgðarsjóðnum eru mun lægri en kostnaður félagsmanna Eflingar vegna málaferlanna. Öllu stóru orðin um áfrýjun vegna galla á íslenska réttarríkinu ruku sem út í veður og vind. Galli virðist hins vegar vera á ákvörðun ábyrgðarsjóðs launa. Greiðslurnar til Rúmenanna virðast ekki hafa verið í samræmi í lög, sagði í tilkynningu frá vinnumálastofnun að kvöldi miðvikudags 10. mars. Í tilkynningu stofnunarinnar segir:

„Afgreiðsla á launakröfum í þrotabúinu [Manna í vinnu] í febrúar og mars, virðist ekki vera í samræmi við lög og mun Vinnumálastofnun taka málsmeðferð sjóðsins til endurskoðunar. Kröfurnar voru afgreiddar í samræmi við samþykki skiptastjóra þrotabúsins sem lá fyrir síðastliðið haust. Í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms 24. febrúar sl.var tilefni til endurskoðunar á afgreiðslu umrædds þrotabús. Það var yfirsjón að afgreiða þessar kröfur án tillits til umrædds dóms.“

Það má álykta af þessu að málarekstur Eflingar hafi orðið til að skaða réttarstöðu Rúmenanna. Héraðsdómarinn sýknaði Menn í vinnu af kröfum sem Efling gerði fyrir hönd Rúmenanna.

Enn sannast við skoðun á gangi þessa máls hve nauðsynlegt er að rýna í orð sósíalistanna sem fara með forystu í Eflingu. Þar skortir allt gagnsæi og leitast er við að sópa yfir eigin mistök. Röð þeirra er löng hjá Sólveigu Önnu og Viðari og undarlegt að þau njóti enn stuðnings innan forystu ASÍ eða formanns VR.