22.2.2023 9:58

Efling skapar vanda ekki lögin

Það er rangt að tala um galla á vinnulöggjöfinni í þessu sambandi. Efni miðlunartillögunnar hefur ekki sætt gagnrýni fyrir dómstólum.

Úr því að ríkissáttasemjari ákvað að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort Eflingu stéttarfélagi væri stætt á að standa gegn atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sína með því að neita að afhenda þriðja aðila, Advania, félagatal sitt og landsréttur taldi ekki grundvöll fyrir afhendingu þess í aðfararlögum þvert á það sem sagði í héraðsdómi er nauðsynlegt að leiða málið endanlega til lykta með áfrýjun þess til hæstaréttar.

Það er rangt að tala um galla á vinnulöggjöfinni í þessu sambandi. Efni miðlunartillögunnar hefur ekki sætt gagnrýni fyrir dómstólum. Hvort nauðsynlegt sé fyrir ríkissáttasemjara að fá kjörskrá afhenta til að unnt sé að greiða atkvæði um miðlunartillögu hans er annað mál.

Skúli Thoroddsen, fyrrverandi lögfræðingur Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins (SGS), segir í grein í Morgunblaðinu í dag (22. febrúar) að það sé samkomulagsatriði hvort atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram hjá „sáttasemjara eða hjá félögunum sjálfum, undir eftirliti sáttasemjara“. Þá segir Skúli:

„Hitt er víst að samningsaðilum er skylt að láta síka atkvæðagreiðslu fara fram, þótt það standi ekki berum orðum í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, eins og sumir bókstafstrúarmenn í lögfræði vilja halda fram. Það er alveg skýrt, eðli málsins samkvæmt, að kjósa skal um miðlunartillögu sáttasemjara (óháð afstöðu Landsréttar um afhendingu kjörskrár), annars væri hlutverk hans markleysa og vinnurétturinn í uppnámi. Það er engum til góðs.“

Að láta eins og núverandi ástand ríki vegna einhvers galla á vinnulöggjöfinni er rangt. Ástandið má einfaldlega rekja til þvermóðsku stjórnar Eflingar sem vill ekki að greidd séu atkvæði um miðlunartillöguna og kemst upp með að svipta félagsmenn sína þeim rétti. Horfist stjórnmálamenn og aðrir ekki í augu við þá staðreynd en taki þess í stað að ræða breytingu á vinnulöggjöfinni leggja þeir í raun á flótta frá því verkefni sem við blasir.

1370109Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson). 

Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, krefst þess fyrir Félagsdómi í máli á hendur Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og íslenska ríkinu að félagsmenn Eflingar fái að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Lögmaður hennar, Halldór Kristján Þorsteinsson, segir í dag í Morgunblaðinu að með því að neita henni um þennan rétt sé gengið gegn hennar réttindum sem séu varin bæði í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Lögmaður ASÍ krafðist nokkurra daga frests í málinu og fékk hann. Magnús M. Norðdahl, lögmaður ASÍ, segir að ferli miðlunartillögu ríkissáttasemjara bendi ekki til neinna brotalama í vinnulöggjöfinni. Landsréttur hafi einungis fjallað um að ákvæði vantaði í aðfararlögin til að styðja vinnulöggjöfina.

Eitt er að málið vegna félagatalsins eða kjörskrárinnar hafi sinn gang fyrir dómstólum og hæstiréttur eigi síðasta orðið um túlkun aðfarararlaganna. Hitt er að standa gegn því að greidd séu atkvæði um miðlunartillögu Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara, krefjast frests fyrir félagsdómi til þess að tefja fyrir atkvæðagreiðslunni og gera ekkert af hálfu ASÍ til að verkföllum sé frestað á meðan félagsdómur fjallar um málið. Hefur Efling náð undirtökunum í ASÍ?