4.10.2019 11:25

EES-skýrsla á morgunvakt rásar 1

Starfshópurinn telur að ekki hafi fundist viðunandi lausn að hans mati á meðferð EES-mála innan stjórnsýslunnar og þess vegna gerir hann tillögur til úrbóta í því efni.

Að morgni föstudags 4. októbær ræddu þeir Björn Þór Sigbjörnsson og Jóhann Hlíðar Harðarson við mig í þætti sínum Morgunvaktinni á rás 1. Umræðuefnið var skýrslan um EES-samstarfið. Dagný Hulda Erlendsdóttir fréttakona birti þessa endursögn á samtali okkar á ruv.is:

„Einn megingallinn við EES-samstarfið er að Íslendingar hafa ekki komið sér saman um framkvæmd þess innanlands, segir Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra, sem fór fyrir starfshópi utanríkisráðherra sem gerði skýrslu um samstarfið. Hann telur að setja eigi upp stjórnstöð EES-mála hér á landi og líta í meira mæli á þau sem innanríkismál. Skýrslan var gefin út í byrjun vikunnar.

Björn sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að umræðurnar hér á landi um EES-samninginn bendi til þess að fólk átti sig ekki á því hve mikilvægt það er. „Við lítum á þetta kannski sem ásælni en þetta er í raun og veru framkvæmd á samstarfi sem við höfum ákveðið að taka þátt í og hvernig ætlum við að standa að því?“ spurði Björn.

Skýrslan er um 300 blaðsíður og í henni eru kaflar þar sem farið er yfir það hvernig rætt hefur verið um ESS á Alþingi og innan stjórnsýslunnar. Björn segir að það hafi orðið ákveðin þáttaskil árið 2015 með skýrslu forsætisráðuneytis og stýrihópi innan stjórnarráðsins, gagnagrunni og meiri miðstýringu.

Leggja til að einn ráðherra fari með EES-mál

Hópurinn telur að það eigi að ganga lengra. „Það eigi að setja á laggirnar hér stjórnstöð EES-mála innan stjórnsýslunnar og við teljum að það ætti að ákvarða við skiptingu embætta á milli ráðherra, að einhver einn ráðherra færi með EES-málefni. Við erum með, í okkar forsetaúrskurðum, ákvæði um að einhver ráðherra fer með Norðurlandamálefni. Þessi málefni eru ekki síður mikilvæg og þetta eru hlutir sem snúa að framkvæmdinni hér innanlands og það má kannski segja að það sé megingallinn, ef að menn lesa þessa skýrslu okkar, að megingallinn er sá að við höfum ekki komið okkur saman um það hvernig við ætlum að standa að framkvæmdinni innanlands.“

Lítur til Liechtenstein sem fyrirmyndar

Björn segir að með hugmyndum um stjórnstöðina sé ekki verið að gera lítið úr hlutverki utanríkisþjónustunnar sem fer með þessi mál. Heldur sé verið að benda á að þetta sé ekki endilega utanríkismál í hefðbundnum skilningi, heldur innanríkismál. Hann tók Liechtenstein sem dæmi. Það sé lítið land sem eigi aðild að EES í gegnum EFTA, líkt og Ísland. Þar sinni sendiráðsstarfsmenn ákveðnum hluta verkefnanna en einnig sé stjórnstöð EES-mála. „Þar sem er fylgst með öllum málunum frá faglegu sjónarhorni. Frá sjónarmiði fagráðuneytanna.“ Þar hafi hópur fagfólks atvinnu af því að fylgjast með EES málum því að litið sé á þau sem innanríkismál.“

Eu_eftaAf minni hálfu er ekki ástæða til að gera athugasemd við þessa frásögn að öðru leyti en því að kannski má skilja orð mín um að við höfum ekki komið okkur saman um meðferð EES-mála á heimavelli á þann veg að um það séu deilur. Svo er ekki heldur átti ég við að starfshópurinn teldi að ekki hefði fundist viðunandi lausn að hans mati á meðferð EES-mála innan stjórnsýslunnar og þess vegna gerir hann tillögur til úrbóta í því efni.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, aðalflutningsmaður beiðninnar um EES-skýrslu frá utanríkisráðherra, sagði í hádegisfréttum ríkisútvarpsins fimmtudaginn 3. október að markmiðið hefði verið „að greina kosti og galla samningsins“. Undraðist Ólafur því orð mín í aðfararorðum skýrslunnar „um að nefndin hyggist ekki setjast í dómarasæti um kosti og galla“ eins og sagði í fréttinni á ruv.is.

Í greinargerð með skýrslubeiðni Ólafs er talin full ástæða „til að meta á hlutlægan hátt kosti og galla samstarfsins á Evrópuvettvangi, ekki síst í ljósi þeirrar reynslu sem Íslendingar hafa öðlast á þessum tíma“. Það þarf sérstök gleraugu til að lesa skýrsluna á þann veg að ekki sé farið að þessum óskum við gerð hennar.

Í ljósi þessa og þess efnis sem starfshópurinn aflaði meðal annars með viðtölum við 147 nafngreinda einstaklinga segi ég í aðfararorðunum:

„Markmið hópsins var ekki að setjast í dómarasæti um kosti og galla EES-samstarfsins heldur draga fram staðreyndir svo að lesendur skýrslu hans gerðu sjálfir upp hug sinn.“

Á þennan hátt tel ég að starfshópurinn hafi tryggt að unnt sé „að meta á hlutlægan hátt kosti og galla“ á þann veg sem óskað er í greinargerð skýrslubeiðenda. Einkunnargjöf af hálfu starfshópsins hefði spillt fyrir hlutlægu mati lesenda.