5.2.2024 9:24

Dýrkeypt útlendingastefna

Opinberar umræður einkennast af þöggun um þessar breytingar vegna óþarfrar umhyggju í garð aðkomufólksins. Margt af því fólki gerir sér þó mun betri grein fyrir hvert stefnir en gamlir heimamenn.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (5. febr.) er lagt er út af samtali við þingmann VG, félags- og vinnumarkaðsráðherrann Guðmund Inga Guðbrandsson, í sjónvarpsþætti blaðsins, Spursmálum.

Leiðarahöfundur segir að svo virðist sem „viðhorfsbreyting kunni að vera að eiga sér stað innan VG um móttöku flóttamanna, verndarkerfið og lagaumgjörð þessara mála“. Ráðherrann hafi að vísu talað „af mikilli varúð enda óttast hann líklega stóryrðaflauminn sem þeir menn fá gjarnan yfir sig sem vilja færa þessi mál til betri vegar“. Hann sé þó „opinn fyrir því að skoða hvaða ákvæði í íslenskri löggjöf ættu að færast til samræmis við löggjöf í öðrum norrænum ríkjum um verndarkerfið“.

Ráðherrann taldi að „við stæðum okkur ekki nógu vel í að taka á móti innflytjendum, þar með talið hælisleitendum“. Skortur á aðlögun beri í sér „hættuna á að aðkomumenn einangrist en samlagist ekki“. Þá upplýsti hann að „áætlað væri að kostnaður ríkisins í ár vegna móttöku flóttamanna yrði sextán milljarðar króna og hið sama væri uppi á teningnum á næsta ári“.

Niðurstaða blaðsins er að séu Vinstri grænir farnir að átta sig á að ekki verði lengur við óbreytt ástand búið, þá aukist líkur á að hægt verði „að taka á þessum málum af nauðsynlegum hraða og festu“.

Screenshot-2024-02-05-at-09.23.30

Hvað segir þessi leiðari lesendum? (1) Stjórnmálamaður á vinstri kantinum þorir varla að víkja orðum að stefnubreytingu í útlendingamálum af ótta við skítakast. (2) Viðurkennt er að löggjöf okkar laðar að fleiri hælisleitendur en löggjöf annars staðar á Norðurlöndunum. (3) Vegna skorts á aðlögun eru líkur á að hér verði hópamyndanir meðal aðkomufólks sem kann að skapa öfgaástand eins og til dæmis í Svíþjóð. (4) Fjárstreymi til þessa málaflokks má líkja við lekann krana sem tæmir tank án þess að nokkuð sé að gert.

Öll atriðin fjögur stafa af því að opinber umræða hér á landi um þessi mál (eins og raunar mörg fleiri) er stórkostlega brengluð, ekki síst þegar litið er til samfélagslegra áhrifa.

„Góða fólkið“ sem gengur fram fyrir skjöldu og telur meira að segja ekki nógu langt gengið við að taka á móti hælisleitendum telur sig sýna meiri samfélagslega mannúð en hinir sem vilja sporna við fæti. Þetta fólk er þó á góðri leið með að grafa undan og gjörbreyta íslensku samfélagi á verri veg.

Opinberar umræður einkennast af þöggun um þessar breytingar vegna óþarfrar umhyggju í garð aðkomufólksins. Margt af því fólki gerir sér þó mun betri grein fyrir hvert stefnir en gamlir heimamenn og óttast því mjög breytingarnar sem „góða fólkið“ boðar. Við erum í vítahring sem verður að rjúfa. Þori stjórnmálamenn það ekki og vilji fjölmiðlamenn það ekki magnast vandinn.

Fyrir utan VG hafa þrír flokkar á þingi sameinast um óbreytta ef ekki opnari útlendingalöggjöf: Píratar, Samfylking og Viðreisn. Ræður þingmanna þessara flokka eru allar keimlíkar um þessi mál.

Samfylking og Viðreisn þykjast boða aðhaldsstefnu gegn sóun í ríkisfjármálum. Það er holur hljómur í þeim boðskap á meðan flokkarnir snúast ekki gegn stjórnlausa lekanum úr ríkissjóði vegna útlendingastefnunnar.