7.3.2022 11:03

Dönsk þjóðarsátt um eflingu varna

Stjórnmálaskýrendur benda á að flokkarnir hafi haft óvenjulega hraðar hendur við að ná saman um þessa stefnubreytingu í dönskum öryggismálum.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, kynnti að kvöldi sunnudags 6. mars, 12 dögum eftir að Pútin sendi rússneska herinn inn í Úkraínu, „þjóðarsátt um danska öryggismálastefnu“. Auk Jafnaðarmannaflokksins standa Venstre, Íhaldsflokkurinn, Radikale Venstre og Sósíalíski þjóðarflokkurinn (SF) að sáttinni um aukin útgjöld til varnarmála og um að lagt verði fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu 1. júní 2022 að fella úr gildi 30 ára gamlan fyrirvara Dana í varnarmálum innan ESB.

Eftir að Danir höfnuðu aðild að Maastricht-sáttmálanum 1992 sömdu þeir innan ESB um nokkra fyrirvara varðandi aðild sína að ESB, þar á meðal á sviði varnarmála. Í fyrirvaranum felst að Danir eiga ekki aðild að hernaðaraðgerðum á vegum ESB og taka ekki þátt í hervæðingu undir merkjum ESB. Danir eiga ekki aðild að hermálastofnunum ESB og hafa ekki atkvæðisrétt í ráðherraráði ESB þegar fjallað er um varnar- og hermál.

93285Danskir flokksforingjar skrifa undir þjóðarsátt um öryggismál.

Nú vilja forystuflokkar stjórnar og stjórnarandstöðu í Danmörku láta enn einu sinni á það reyna hvort kjósendur veiti þeim ekki umboð til að falla frá þessum fyrirvara.

Danski forsætisráðherrann sagði að hækkun útgjaldanna til varnarmálanna væri meiri en Danir hefðu kynnst um langt árabil. Þá eru flokkarnir sem eiga aðild að þjóðarsáttinni sammála um að „svo fljótt sem kostur er“ eigi að minnka kaup Dana á gasi frá Rússlandi.

Stjórnmálaskýrendur benda á að flokkarnir hafi haft óvenjulega hraðar hendur við að ná saman um þessa stefnubreytingu í dönskum öryggismálum, sé það til marks um hve alvarlegum augum þeir líti á hættuna sem stafar af hernaði Rússa í Úkraínu.

Nú sé forsætisráðherrann skyndilega fús til að afmá varnar-fyrirvarann, SF og Radikale venstre styðji aukin útgjöld til hermála og Venstre og Íhaldsflokkurinn gangi til samstarfs við stjórnina til að stefna þeirra um að efla danska herinn nái fram að ganga.

Andreas Krog, sérfræðingur vefsíðunnar altinget.dk í varnarmálum, segir auk þess að í Danmörku gæti að þessu leyti áhrifa frá ákvörðun jafnaðarmannsins Olafs Scholz Þýskalandskanslara um stóraukin útgjöld til varnarmála. Danir séu hefðbundið í skjóli Þjóðverja, þegar þeir taki sæki fram verði Danir einnig að gera það.

Viðhorf dansks almennings til varnar-fyrirvarans gjörbreyttist við innrás Rússa megi marka skoðanakannanir, stuðningur við að fjarlægja fyrirvarann nýtur nú stuðnings meirihluta aðspurðra í stað aðeins um þriðjungs áður.

Fyrir innrásina lét Mette Frederiksen eins og fyrirvarinn hefti sig ekki neitt innan ESB. Þegar hún var spurð á blaðamannafundinum 6. mars hvers vegna hún legði nú til að fallið yrði frá fyrirvaranum svaraði forsætisráðherrann:

„Það var Evrópa fyrir 24. febrúar [innrásardaginn]. Eftir [daginn] er Evrópa önnur. Nú verða allir í vestræna heiminum að endurskoða stöðu sína.“

Tvisvar sinnum hafa Danir greitt atkvæði um niðurfellingu fyrirvarans en hafnað henni í bæði skipti, síðast árið 2015 með 53,1% atkvæða.