25.5.2020 9:16

COVID-19-neyðarstigi aflétt

Tilkynnt var miðvikudaginn 20. maí að neyðarstiginu yrði aflétt í dag, mánudaginn 25. maí, það gilti því í tvo mánuði og 19 daga.

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir neyðarstigi almannavarna vegna COVID-19-faraldursins föstudaginn 6. mars 2020. Tilkynnt var miðvikudaginn 20. maí að neyðarstiginu yrði aflétt í dag, mánudaginn 25. maí, það gilti því í tvo mánuði og 19 daga. Boðað er að til sama ráðs kunni að verða gripið berist vísbendingar um að veiran nái sér á strik í landinu. Þríeykið svonefnda, Víðir Reynisson frá almannavarnadeil ríkislögreglustjóra, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir, efna til lokafundar síns í beinni útsendingu síðdegis í dag en stjórnvöld hafa farið að ráðum þeirra við framkvæmd neyðaraðgerða á undanförnum vikum.

NimagesNeyðarskipulag almannavarna

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra birti auglýsingu föstudaginn 22. maí um að frá og með mánudeginum 25. maí yrði allt að 200 manns heimilt að koma saman í stað 50 áður, heimilt yrði að opna líkamsræktarstöðvar með sömu takmörkunum og gilda um sund- og baðstaði sem voru opnaðir mánudaginn 18. maí.

Þá er öllum veitingastöðum, þar með töldum krám og skemmtistöðum, og einnig spilasölum, núi heimilt að hafa opið til kl. 23.00. Hvatt er til þess að viðhalda tveggja metra nálægðarmörkum eftir því sem kostur er, eins og nánar er fjallað um í auglýsingunni. Auglýsingin er í fullu samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.

Þá er framkvæmd tveggja metra reglurnar breytt nokkuð. Horft er til þess að vernda þá sem eru viðkvæmir með því að skapa þeim sem það kjósa aðstæður til að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu. Þannig verði til dæmis á veitingastöðum, í leikhúsum og bíósölum boðið upp á að minnsta kosti nokkur sæti sem geri þetta kleift.

Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins vegna auglýsingarinnar segir:

„Frá upphafi COVID-19 faraldursins hér á landi hafa greinst smit hjá rúmlega 1.800 einstaklingum. Undanfarið hefur nýsmitum fækkað verulega og hafa aðeins fimm einstaklingar greinst það sem af er maímánuði. Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að þær tilslakanir sem gerðar voru á samkomutakmörkunum 4. maí síðastliðinn virðist ekki hafa leitt til fjölgunar sjúkdómstilfella.“

Spennandi verður að sjá hver áhrif þessarar slökunar verða. Undanfarna viku hef ég sótt Laugardalslaugina á sama tíma og áður, hitt sama fólk og áður, allir halda sig við sama búningsskáp og sama sturtuhaus og áður. Ekkert hefur með öðrum orðum breyst. Ef til vill er þetta vísbending um að allt falli í sama farið og áður. Ástæða er þó til að efast, varla er unnt að kynnast meiri íhaldssemi en í þessum sundfélagahópi.

Nokkur athygli beinist að þessum breytingum hér á landi. Á leiðinni í sundið heyrði ég til dæmis hluta af samtali fréttamanns BBC við ritstjóra blaðsins Grapevine sem kemur út í Reykjavík. Hann bíður spenntur eftir erlendum ferðamönnum.