14.1.2019 11:21

Brexit-úrslitastund nálgast

Nú er boðuð atkvæðagreiðsla um Brexit-skilnaðarsamkomulagið í neðri deildinni þriðjudaginn 15. janúar. Enn er því spáð að tillaga May verði felld.

Efnt var til þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi sumarið 2016 um aðild Breta að Evrópusambandinu (ESB). Þáverandi forsætisráðherra, David Cameron, vildi með atkvæðagreiðslunni ýta til hliðar ágreiningi innan eigin flokks, Íhaldsflokksins, um aðildina að ESB. Flokkurinn gekk klofinn til atkvæðagreiðslunnar. Úrsagnarsinnar, Brexit-sinnar, sigruðu. Cameron varð undir og sagði af sér forsætisráðherraembættinu og leiðtogastöðunni. Við tók Theresa May, ESB-aðildarsinni, sem setti sér það markmið að framkvæma vilja þjóðarinnar og ganga úr ESB.

1-CzxotGGINH3qbcabezx1gGangan undir forystu May hefur verið sannkölluð þrautaganga. Hún rauf þing og boðaði til kosninga til að auka meirihluta íhaldsmanna að baki stjórn sinni.  Vopnin snerust í höndum hennar. Hún leiðir nú minnihlutastjórn sem situr í skjóli Lýðræðislega sameiningarflokksins (DUP) á Norður-Írlandi.

Haustið 2018 gerði May skilnaðarsamkomulag við ESB. Þetta samkomulag ætlaði hún að bera undir neðri deild þingsins 11. desember. Frá því hvarf hún. Við blasti að samkomulagið yrði fellt.

Nú er boðuð atkvæðagreiðsla um Brexit-skilnaðarsamkomulagið í neðri deildinni þriðjudaginn 15. janúar. Enn er því spáð að tillaga May verði felld. Í fyrri viku samþykkti þingið, gegn vilja May, að hún hefði þrjá daga til að leggja „plan B“ fyrir þingið yrði „plan A“ fellt. Þingið tók næsta skref í Brexit-göngunni í sínar hendur.

Daginn fyrir atkvæðagreiðsluna, mánudaginn 14. janúar, sagði May í ræðu að yrði Brexit-tillaga hennar felld væru meiri líkur á að þingmenn vildu vera áfram í ESB en þeir vildu fara án skilnaðarsamnings við ESB.

Þetta yrði ótrúleg niðurstaða. Hún sýndi hins vegar hve vel verður að standa að verki vilji menn kollvarpa skipan sem mótast hefur á mörgum áratugum.

Ekki er vafi á því að það sem gerst hefur í samskiptum Breta og ESB undanfarin misseri hefur mildað harða stefnu þeirra innan einstakra ESB-landa sem voru gagnrýnastir á ESB-aðild þjóða sinna. Þeir tala ekki fyrir úrsögn í komandi kosningum til ESB-þingsins heldur fyrir úrbótum – minnkun ofstjórnarvalds í Brussel.

Þýski hægriflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) ákvað t.d. sunnudaginn 13. janúar að yrði ekki orðið við kröfum hans um grundvallarbreytingar á ESB „innan hæfilegs tíma“ kæmi úrsögn til álita. Gagnrýnir stjórnarherrar í Póllandi, Ungverjalandi og á Ítalíu leggja áherslu á ESB-umbætur en ekki ESB-úrsögn.

Skyldu Bretar að lokum skipa sér í þessar raðir?