8.9.2020 10:39

Brexit-sagan endalausa

Brexit-viðræðurnar eru sagan endalausa og engar tímasetningar fastari í hendi en stjórnmálamenn ákveða. Enn er því rétt að bíða og sjá hvað gerist.

Þegar mælt var með aðild Íslands að ESB sumarið 2009 og alþingi samþykkti aðildarumsóknina létu aðildarsinnar eins og auðvelt yrði að semja um fiskveiðar og sjávarútvegsmál á þann veg að Íslendingar gætu vel við unað.

Alls kyns sjónarmiðum var hreyft þessu til stuðnings, sjónarmiðum sem reyndust haldlaus þegar á reyndi. Raunar náðu íslenskir stjórnmálamenn aldrei svo langt að sjá á spil ESB. Samningamenn sambandsins lögðu ekki fram álitsgerðir varðandi sjávarútvegsmálin og þess vegna voru aðildarviðræðurnar í raun marklausar frá árinu 2011.

Nú eru rúm fjögur ár síðan Bretar samþykktu úrsögn úr ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu og í dag (8. september) hefst enn ein lotan í brexit-viðræðum fulltrúa ESB og Breta. Í fyrra náðist samkomulag um skilnaðarsamninginn að þessu sinni eru það efnisatriðin til framtíðar.

Britain-politicsBoris Johnson leggur ef til vill fyrir breska þingið frumvarp sem gengur gegn ESB-skilnaðarsamningnum sem hann gerði árið 2019.

Við það er miðað að 1. janúar 2021 hefjist nýr kafli í samskiptasögu ESB og Bretlands, með Breta utan sambandsins. Spurningin er hvort þetta verði samningsbundin samskipti eða án samnings. Dagsetningin fyrir niðurstöðu um samning er sett 15. október 2020. Það er ekki langur tími til stefnu og staðan er einfaldlega stál í stál.

COVID-19-faraldurinn hefur sett strik í reikninginn beggja vegna Ermarsunds. Hann er enn hömlulaus í Bretlandi og á meginlandinu er ekki heldur öflug stjórn á faraldrinum. Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, vill líklega ekki að neitt endanlegt verði ákveðið fyrr en eftir landsþing Íhaldsflokksins í október.

Átakamálin eru tvö eins og áður:

(1) Fiskveiðar við strendur Bretlandseyja. Af hálfu ESB er þess krafist að skip aðildarríkjanna hafi óbreyttan rétt til fiskveiða í breskri lögsögu. Bretar vilja tvöfalda rétt sinn til veiða í eigin lögsögu. Aðeins átta ESB-ríki hafa áhuga á veiðum við Bretland en öll ríkin 27 standa að kröfunni um rétt til fiskveiða með Frakka í fararbroddi.

(2) Breska stjórnin hefur ekki kynnt stefnu sína varðandi ríkisaðstoð eða undirboð að lokinni ESB-úrsögn. Af hálfu ESB er lögð höfuðáhersla á að samkeppnisstöðu fyrirtækja sé ekki raskað með ríkisíhlutun. Bretum finnst þessar áhyggjur óþarfar. Engin dæmi séu um það í Bretlandi, nema í hruninu 2008/09 að ríkissjóður hafi tekið fyrirtæki í fangið. Árið 2018 hafi Bretar varið 0,34% af VLF í ríkisstuðning, í Þýskalandi sé talan 1,45% og 0,79% í Frakklandi. Þá hafi ESB gert fríverslunarsamninga við önnur ríki án þess að gera fyrirfram bindandi kröfur varðandi ríkisstyrki og samkeppnisreglur.

Í gær var umræðum um þessi efnisatriði ýtt til hliðar með frétt í The Financial Times um að lagt yrði fyrir breska þingið frumvarp til laga sem gengur þvert á skilnaðarsamninginn við ESB sem gerður var í fyrra. Vangaveltur eru um hvort þetta sé leikbragð af hálfu bresku stjórnarinnar eða hvort hún íhugi í raun að ganga gegn samkomulagi sem hún gerði sjálf.

Brexit-viðræðurnar eru sagan endalausa og engar tímasetningar fastari í hendi en stjórnmálamenn ákveða. Enn er því rétt að bíða og sjá hvað gerist. Íslendingar hefðu ekki farið í ESB án þess að semja um fiskveiðar og sjávarútvegsmál, aðildarviðræðurnar runnu út í sandinn árið 2011. Bretar geta farið úr ESB án samnings og gera það ef til vill til að ná stjórn á eigin fiskveiðilögsögu.