31.1.2019 8:00

Brexit er vandi Breta ekki ESB

Þegar fylgst er með viðbrögðum Brusselmanna við pólitíska bramboltinu í Bretlandi er augljóst að þeir líta á málið sem afgreitt af sinni hálfu.

Bresku blöðin í eigu Murdochs hafa öll lagst á sveif með andstæðingum aðildar Breta að ESB og sömu sögu er að segja um dagblaðið The Daily Telegraph og vikuritið The Spectator.

Nauðsynlegt er að hafa þetta allt í huga þegar lesið er um Brexit á þessum örlagatímum. Bresku fréttirnar bera þess merki að Bretum sé sýnd óvild og þvermóðska. Nú hafi breska þingið samþykkt að Theresa May forsætisráðherra skuli fara til Brussel og krefjast endurskoðunar eða umbóta á samningi við ESB en Brusselmenn vilji engu breyta. Gefið er til kynna að í þessu felist illmennska af hálfu ESB.

Um nokkurra mánaða skeið hefur hótun May verið: annaðhvort verður samningur minn við ESB samþykktur eða Bretar fara án samnings. Nú hefur breska þingið svipt May þessari hótun. Það samþykkti að ekki skyldi farið úr ESB án samnings.

1-CzxotGGINH3qbcabezx1g

Þegar fylgst er með viðbrögðum Brusselmanna við pólitíska bramboltinu í Bretlandi er augljóst að þeir líta á málið sem afgreitt af sinni hálfu. Af aðildarríkjum ESB, fyrir utan Írska lýðveldið, hafi þau sem eru landfræðilega næst Bretlandi: Norður-Frakkland, Holland og Danmörk og nokkur þýsk stórfyrirtæki áhyggjur vegna hagsmuna sinna af viðskiptum við Breta, aðra snerti þetta lítið hvernig sem að úrsögninni er staðið. Vissulega myndist gat í fjárlögum ESB en það verði brúað.

Í raun er Brexit fyrst og síðast breskt vandamál. ESB hefur brynjað sig gegn því að fleiri fari sömu leið. Það er gert af hörku út á við. Hvernig staðið verður að málum inn á við skýrist meðal annars í kosningunum til ESB-þingsins í maí.

Á meginlandi Evrópu segja menn að David Cameron hafi smitast af Murdoch-áróðrinum. Hann hafi farið á hvern leiðtogaráðsfund ESB eftir annað og talað ESB niður. Síðan hafi hann talið sig ná góðum samningi við ESB, snúið við blaðinu og hvatt fólk til að styðja ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hafi verið of seint. Bretar sitji uppi með eigin niðurstöðu og verði að vinna úr henni. Það sé ekki verkefni ESB.