13.1.2022 10:57

Boris enn á bláþræði

The Spectator segir engar afsakanir forsætisráðherrans eða annarra vegna atviksins halda vatni. Það sé „tortímandi“ fyrir hann pólitískt.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, berst fyrir pólitísku lífi sínu. Hann þótti standa sig afspyrnu illa þegar hann svaraði óundirbúnum fyrirspurnum í þinginu í gær (12. janúar). Í dag er sótt að honum úr öllum áttum. Má þar meðal annars nefna leiðara vikublaðsins The Spectator sem Johnson ritstýrði um tíma. Hann hefst á þessum orðum:

„Tuttugasta maí 2020 sendi höfuðborgarlögreglan (e. Metropolitan Police) frá sér tilkynningu á samfélagsmiðlum þar sem reglum þjóðlífsins var lýst á þennan hátt: „Hefur þú notið heitasta dags ársins til þessa?“ var spurt. „Þú getur slakað á, borðað utan dyra, æft eða stundað íþróttir svo framarlega sem þú ert einn, með fólki sem þú býrð með eða aðeins þú og ein önnur manneskja.“ Ósagt var að gerðu menn eitthvað annað brytu þeir lögin.

Frá aðalaðstoðarmanni Boris Johnsons í Downing stræti 10 [skrifstofu forsætisráðherrans] bárust hins vegar allt önnur skilaboð til rúmlega 100 starfsmanna skrifstofunnar: „Njótið yndislega veðursins eins vel og þið getið,“ sagði þar og „komið með eigið sprútt“ í partí í bakgarðinum. Forsætisráðherrann hefur nú viðurkennt að hann hafi verið 25 mínútur í partíinu – ástundað það sem hann gaf lögreglunni fyrirmæli um taka aðra fasta fyrir að gera. Nú afsakar hann sig með frekar ósennilegri skýringu um að hann hefði talið þetta vinnufund.“

The Spectator segir engar afsakanir forsætisráðherrans eða annarra vegna atviksins halda vatni. Það sé „tortímandi“ fyrir hann pólitískt. Blaðið fer hörðum orðum um harkalegar þvinganir breskra stjórnvalda til að stjórna lífi fólks í krafti faraldursins. Lögreglan hafi á tímabili ráðist inn í barnaafmæli til að leysa þau upp, hún hafi sektað fólk fyrir að fara í sólbað eða sitja á bekk í almenningsgarði.

Leader-Getty_1642071380975Boris Johnson.

Forsætisráðherrann ætti að skammast sín, biðjast afsökunar á viðunandi hátt og veita öllum sakaruppgjöf sem sættu refsingu fyrir að brjóta sóttvarnareglur um heimadvöl á árunum 2020 og 2021. The Spectator gengur þó ekki svo langt í leiðaranum að krefjast afsagnar forsætisráðherrans. Aðrir gera það.

Siðameistari stjórnarráðsins, Sue Gray, gerir nú úttekt á því sem gerðist í garðinum nr. 10 heita daginn 20. maí 2020. Innan Íhaldsflokksins er opinbera stefnan að bíða eftir niðurstöðunni og þá verði tekin afstaða til þess hvort Boris Johnson sitji áfram.

Eftir hörmulega útreið forsætisráðherrans í þinginu um hádegi 12. janúar létu 24 ráðherrar frá sér heyra honum til stuðnings, samkvæmt skýrum fyrirmælum frá nr. 10. Tvö drógu stuðningsyfirlýsingar fram eftir degi: Liz Truss utanríkisráðherra sem sagði á Twitter: „Forsætisráðherrann nær árangri fyrir Bretland – frá Brexit til örvunaráætlunarinnar til hagvaxtar. Ég stend 100% að baki forsætisráðherranum þegar hann leiðir þjóðina áfram.“ Og Rishi Sunak fjármálaráðherra sem sagði aðeins að það hefði verið „rétt“ hjá Johnson „að biðjast afsökunar“ í þinginu, sýna ætti „þolinmæði“ á meðan Sue Gray rannsakaði málið.

Athygli beinist nú helst að Liz Truss og Rishi Sunak verði Boris Johnson vikið til hliðar og valinn nýr leiðtogi Íhaldsflokksins.