24.1.2022 9:23

Borgarstjórinn og innviðirnir

Nú beinist athygli að ákvörðunum borgarstjóra um ráðstöfun á verðmætri lóð N1-bensínstöðvar við Ægisíðu til eignarhaldsfyrirtækisins Festar.

Tekist hefur verið á um það fyrir dómstólum hvort Reykjavíkurborg sé heimilt að leggja svonefnt innviðagjald á byggingaframkvæmdir. Nú hefur hæstiréttur samþykkt áfrýjunarbeiðni verktakafyrirtækisins Sérverks ehf. í máli fyrirtækisins gegn borginni. Fyrirtækið krefst endurgreiðslu á um 120 milljóna króna innviðagjaldi sem það varð að greiða í tengslum við uppbyggingu í Vogabyggð. Telur Sérverk að gjaldið sé skattur eða ígildi skatts án stoðar í lögum.

Í frétt á visir.is laugardaginn 22. janúar um þetta mál segir að Sérverk hafi stofnað til málaferlanna til að fá úrlausn í þessu máli fyrir hönd margra annarra verktaka í Samtökum iðnaðarins.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði borgina, meðal annars á þeim grundvelli að greiðsluskyldan hvíldi á gagnkvæmum samningi og væri ekki skattur. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

Sérverk óskaði þá eftir heimild til þess að áfrýja málinu til hæstaréttar á þeim grundvelli að málið hefði verulegt almennt gildi, þar reyndi á gjaldtökuheimildir sveitarfélaga án lagaheimildar, auk þess væri dómur landsréttar bersýnilega rangur.

Í ákvörðuninni um áfrýjunarheimild segir hæstaréttar að niðurstaða réttarins í málinu kunni að hafa fordæmisgildi um þau atriði sem Sérverk nefnir í leyfisbeiðni sinni.

VindexVogabyggð verður vestan við Elliðaárvoginn, deilt er um greiðslu innviðagjalds vegna hennar (mynd: reykavik.is).

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri nefnir þessa samninga um innviðina „uppbyggingarsamninga“. Um þá eru ekki lögbundin viðmið og ræðst efni þeirra af hvaða fyrirtæki á í hlut og hvar í borginni. Viðmiðið er hvort borgarstjóri vill gera vel við fyrirtæki, líklega með vísan til „almannahags“.

Nú beinist athygli að ákvörðunum borgarstjóra um ráðstöfun á verðmætri lóð N1-bensínstöðvar við Ægisíðu til eignarhaldsfyrirtækisins Festar. Verðmæti lóðarinnar sem borgarstjóri ráðstafar sem byggingarlands til Festar telja sérfræðingar á bilinu 2-3 milljarða kr. Borgarstjóri þvertekur fyrir þá fjárhæð og segir hana allt of háa og bætir við að þar sem hún birtist í Morgunblaðinu verði menn að hafa í huga að kosningar séu í nánd. Talar hann eins og Trump sem sagði allt sér neikvætt falsfréttir.

Rök Dags B. við þéttingu byggðar hafa verið að fyrst komi innviðirnir og síðan íbúðabyggðin. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir í Morgunblaðinu 22. janúar að í Vesturbænum, nágrenni N1-lóðarinnar, séu „innviðirnir algerlega sprungnir, hvergi lengri biðlistar í leikskóla og frístund, Melaskóli [sé] sprunginn, KR komið að mörkum, Hagaskóli og tveir leikskólar í hverfinu á vergangi vegna myglu [...] það [sé] allt í upplausn og enginn grundvöllur fyrir frekari byggð“.

Borgarstjórinn haldi samskiptum við Festi algerlega hjá sér. Hildi „sýnist sem hann hafi ekki haft hagsmuni borgaranna að leiðarljósi“. Hann beri einn ábyrgðina á þeim vandræðum sem skapist vegna samnings sem hann gerði.

Borgarstjóri hlýtur að greina frá því hvort í þessum „uppbyggingarsamningi“ sé smátt letur um innviði.