9.1.2018 10:45

Borgarlína smjörklípa til að fela stjórnleysi

Niðurlægingu höfuðborgarinnar er fagnað af því að hún er talin koma Sjálfstæðisflokknum illa þótt hann beri ekki ábyrgð á henni.

 

 Í gær vakti ég máls á því hér á þessum stað að óhjákvæmilega yrði tekist á um ólík sjónarmið vegna borgarlínu í komandi sveitarstjórnarkosningum. Vísaði ég þar til hugleiðinga Frosta Sigurjónssonar sem ég taldi eiga mikið erindi inn í umræðurnar. Varpaði ég fram hugmynd um að Frosti tæki þátt í leiðtogakjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík og léti reyna á stuðning þeirra sem þar kjósa við sjónarmið sitt.

Þessi tillaga varð til þess að rætt var við Frosta á mbl.is og þar birtist þetta:

„Frosti tekur undir með Birni um að borgarlína eigi að verða kosningamál fyrir komandi borgarstjórnarkosningar en í samtali við mbl.is segist hann ekki vera á leið í stjórnmál að nýju.

Þessi grein er ekki leið til þess að fara út í stjórnmál en hún er ákall borgara um að einhver geri eitthvað, segir Frosti og bætir við að hann sé búinn að prófa pólitíkina og hún sé ekki mjög skemmtileg.

„Það var gaman að prófa þetta en ég ætla ekki að gera þetta að ævistarfi,“ segir Frosti spurður út í hvort hann ætli að taka áskorun Björns.“

Þetta er skýr afstaða hjá Frosta og skiljanleg, sérstaklega í ljósi þess hve allar umræður í tengslum við borgarstjórnarkosningarnar eru ómálefnalegar. Sannaðist það enn í umræðum um það sem hér sagði í gær um Frosta og borgarlínuna. Vissulega var Frosti þingmaður Framsóknarflokksins. Það ætti þó ekki að þykja tiltökumál nú á tímum að fara úr einum flokki í annan.

Hallærislegustu skrifin vegna áhuga míns á að rætt verði um borgarlínuna bæði innan Sjálfstæðisflokksins og í komandi kosningum birtust í leiðara aðalritstjóra Fréttablaðsins, Kristínar Þorsteinsdóttur, í morgun (9. janúar). Leiðarinn er nöldur í garð Sjálfstæðisflokksins og tilraun til að niðurlægja hann vegna fyrirhugaðs leiðtogakjörs innan flokksins um borgarstjóraefni.

Borið er lof á stjórnarhætti Jóns Gnarrs sem hafi sýnt „að góð stjórnun snýst fyrst og fremst um að þiggja góð ráð en ekki þykjast hafa ráð undir rifi hverju“.

Hámark hneykslunar aðalritstjórans birtist í þessum orðum: „Fortíðardraugur úr borginni, Björn Bjarnason, stakk meira að segja upp á því að Framsóknarmaðurinn Frosti Sigurjónsson yrði dreginn á flot.“

Þegar skrifað er um stjórnmál á þennan hátt undrast fáir að þeim fækki sem hafa áhuga á þátttöku í þeim. Vandi Reykvíkinga er einmitt sá að til forystu hefur valist fólk sem hefur ekki vald á að stjórna borginni: skuldir eru hærri en skiljanlegt er, sorphirða er léleg, vandræði við rekstur leikskóla og grunnskóla, húsnæðislausum fjölgar, skömmtun á byggingarlóðum, mengunarmál úr böndum, húsakostur orkuveitu í molum, öfgastefna í umferðarmálum o.s.frv, o.s.frv – svo að ekki sé minnst á borgarlínuna.

Niðurstaða aðalritstjóra Fréttablaðsins er að borgarbúar vilji að haldið verði áfram á sömu braut – kröfurnar eru engar og aðhaldið ekkert. Niðurlægingu höfuðborgarinnar er fagnað af því að hún er talin koma Sjálfstæðisflokknum illa þótt hann beri ekki ábyrgð á henni.

Þótt borgarlína verði til umræðu fyrir kosningar í vor er ólíklegt að nokkuð gerist vegna hennar á næsta kjörtímabili. Minni á að fyrir kosningar árið 2002 var mikið rætt um Sundabraut – hvar er hún 2018? Eða lokun Reykjavíkurflugvallar sem einnig var hitamál árið 2002? Borgarlína kann að vera smjörklípa yfirvalda til að draga athygli frá stóra vandanum í Reykjavík, stjórnleysinu.