30.8.2021 6:07

Bólusetningin ein dugar

Bólusetning og aftur bólusetning er eina sem dugar. Óþarfi er að halda að annað skipti máli – þess vegna á að hætta því.

Áður en haldið var í ferð til Frakklands með flugi til Genf í Sviss varð að tryggja sér íslenskt vottorð um bólusetningu sem auðvelt er að nálgast rafrænt á Heilsuveru og prenta út eða varðveita í farsímanum sínum. Þá krefjast Svisslendingar rafrænnar skráningar og þess að hver og einn sem kemur til landsins haf QR-kóða. Loks vilja Frakkar að ritað sé undir skjal sem má nálgast á netinu og ferðamenn hafa með sér.

Í Leifsstöð var múgur og margmenni en við komum þangað með fyrra fallinu og allt gekk greiðlega við innritun þar sem krafist var framvísunar á bólusetningarvottorðinu og að gengið væri með grímu. Sama gilti í flugvélinni, allir sátu með grímur og gengu með þær á flugvellinum í Genf. Þar var hins vegar engin pestarskoðun eða troðningur vegna hennar. Allt var eins og venjulega við komu í flugstöð og ekki var krafist neinna skjala á landamærum Sviss og Frakklands.

Á franska hótelinu var hins vegar beðið um bólusetningarvottorðið og það skannað. Sama gerist á veitingastöðum. Áður en þjónn hefur afgreiðslu biður hann um framvísun á vottorðinu og skannar það. Þessar kröfu mótmæla margir Frakkar kröftuglega og telja hana árás á persónufrelsi sitt. Hef ég þó ekki sést það gerast á veitingastað.

IMG_3890Margmnenni á götumarkaði í Annecy í Frakklandi laugardaginn 28. ágúst 2021. Sumir með grímur aðrir ekki en aðeins bólusetningarvottorð duga til að fá afgreiðslu í veitingahúsum.

Hér í Frakklandi hefur almenningur tekið kröfunni um bólusetningu frekar dræmt og mótmælin við skönnun á veitingastöðum er að öðrum þræði andstaða við bólusetningu. Fyrir nokkru heyrði ég fréttasamtal við stuðningskonu Emmanuels Macrons forseta og sagðist hún ekki geta stutt forsetann í hörðum kröfum hans um bólusetningar og framvísun vottorða, það bryti gegn því sem áunnist hefði í frönsku stjórnarbyltingunni fyrir rúmum tveimur öldum.

Hér í vinsæla ferðamannabænum Annecy var mikill fjöldi fólks á götum úti lokahelgina í ágúst, frímánaðar Frakka. Síður en svo allir bera grímu utan dyra þótt sjá megi skilti þar sem bæjaryfirvöld mælast til þess. Eina ótvíræða merkið um öryggisráðstöfun er krafan um bólusetningarvottorðið. Innan húss er mælst til að bornar séu grímur. Frakkar eru fjarri því að vera smitlausir.

Nú hafa Danir ákveðið að aflétta öllum farsóttarhömlum hjá sér innan nokkurra daga og Norðmenn velta fyrir sér að fara sömu leið. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur hana hins vegar háskalega. Það eigi að fara hægar í sakirnar, einkum við landamærin.

Þannig geta eyjaskeggjar talað. Að nýta sér landfræðilegt forskot eyjaskeggjans í baráttu við veiruna skilar þó ekki veiruleysi eins og sannast nú á Nýja-Sjálandi. Þar var meiri áhersla lögð á algjöra landamæralokun en bólusetningu. Innan landamæranna ríkt frelsi vegna lokunar þeirra og 98% samdrátar í ferðaþjónustu. Um miðjan ágúst 2021 var öllu skellt í lás í innan lands þegar eitt smit fannst en 10 dögum síðar voru smitin orðin 347. Ekki sér fyrir endann á útbreiðslunni.

Við getum varla kennt öðrum þjóðum eitthvað í sóttvörnum. Hver fer eigin leið og sýpur seyðið af að misstíga sig. Bólusetning og aftur bólusetning er eina sem dugar. Óþarfi er að halda að annað skipti máli – þess vegna á að hætta því.